KSÍ ekki með tékkheftið

Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur. mbl.is/Árni Sæberg

„Við stöndum í þeirri meiningu að þetta verkefni hafi verið á hendi KSÍ. Þegar við komumst að því að þetta var allt orðið miklu dýrara þá var þessi fundur haldinn 21. mars. Þar sagði ég meðal annars að samningurinn væri ekki þannig að þeir væru komnir með tékkheftið hjá Reykjavíkurborg, það væru alveg hreinar línur,“ segir Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Reykjavíkur.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, sendi borgarstjóra Reykjavíkur bréf í síðustu viku þar sem hann sagði að embættismönnum borgarinnar hefði átt að vera ljóst að framkvæmdir vegna byggingar nýrrar stúku við Laugardalsvöll væru komnar fram úr áætlun eigi síðar en 21. mars 2006. Í bréfinu segir ennfremur að KSÍ geti ekki setið undir þeim fullyrðingum Dags. B. Eggertssonar að hann hafi ekki vitað að kostnaður hafi farið fram úr upphaflegri áætlun. Dagur hafi setið þá fundi sem allar „afdrifaríkustu ákvarðanir“ verksins hafi verið teknar, meðal annars samningur við Ístak um stærsta verkþátt framkvæmdarinnar.

Ekki sömu upplýsingar

Hrólfur segir hinsvegar að svo virðist sem fulltrúum Reykjavíkur í byggingarnefndinni hafi ekki verið gerð grein fyrir sömu upplýsingum og honum hafi verið sagt frá tveimur vikum fyrr á fundinum 3. apríl. Dagur staðfestir það og segir fullyrðingar Geirs beinlínis rangar. KSÍ hafi einhliða verið búið að semja við Ístak áður en það var kynnt á nefndarfundi og því til viðbótar hafi 372 milljóna króna aukaverk bæst við verkið eftir að hann fór úr nefndinni

„Byggingarnefnd var ekki gerð grein fyrir neinu varðandi hugsanlega framúrkeyrslu á þeim fundum sem ég sat. Ég fæ ekki betur séð en að það hafi í raun aldrei neinn samþykkt hlut í framúrkeyrslunni í þessu verkefni fyrir hönd borgarinnar.“ Geir segir að hann muni ekki nákvæmlega umræður á fundi sem haldinn var fyrir tveimur árum. „Eina sem ég get sagt er að þeir höfðu þetta í sínum höndum og við getum ekki tekið ábyrgð á því hvernig samskipti eru innan borgarinnar. Þar hljóta menn að tala saman.“

Í hnotskurn
21. mars 2006 funduðu KSÍ og framkvæmdasvið Reykjavíkur. Þar voru lagðar fram upplýsingar um framúrkeyrslu. 3. apríl var haldinn fundur í byggingarnefnd verksins. Þar voru sömu upplýsingar ekki kynntar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert