Miðstjórnin vill Jón sem þingflokksformann

Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson.
Jón Magnússon og Magnús Þór Hafsteinsson.

Miðstjórnarfundur Frjálslynda flokksins samþykkti á  fundi í vikunni að skora á þingflokk Frjálslynda flokksins að gera Jón Magnússon, alþingismann flokksins í Reykjavík, nú þegar að formanni þingflokksins. Núverandi þingflokksformaður er Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis.

Eiríkur Stefánsson lagði tillöguna fram. Í greinargerð með ályktunni kemur fram að lög flokksins kveði skýrt á um að flokkurinn eigi að leggja áherslur á aukið lýðræði og valddreifingu í samfélaginu. Í því ljósi sé óásættanlegt að þingmaður FF í Reykjavík skuli ekki ekki hafa verið gerður að formanni þingflokksins eftir síðustu alþingiskosningar og flokkurinn þannig stuðlað að auknu lýðræði og valddreifingu innan þeirra kjördæma landsins þar sem FF fékk kjörna alþingismenn árið 2007.

„Ég get ekki túlkað þetta öðruvísi en að þetta séu aðeins tilmæli frá miðstjórn til þingflokks um að þingflokkurinn skipti um þingflokksformann,“ segir Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður FF. Bendir hann á að þó lög flokksins kveði skýrt á um það að miðstjórn sé æðsta yfirvald flokksins þá sé þingflokkurinn hins vegar sjálfstæður og hafi þess vegna eigið umboð til þess að velja sér þingflokksformann óháð vilja miðstjórnarinnar.

„Hins vegar hlýtur þetta að vekja upp spurningar um það hver sé staða þingflokksformannsins ef hann bersýnilega virðist ekki lengur njóta traust meirihluta miðstjórnar sem er æðsta yfirvald flokksins,“ segir Magnús Þór. 

Hvorki náðist í Guðjón A. Kristjánsson, formann FF, né Kristinn H. Gunnarsson, þingflokksformann FF, við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert