Barn lenti í lífsháska vegna tyggjókúlu í ís

Hús Kjörís í Hveragerði
Hús Kjörís í Hveragerði

Kjörís hefur ákveðið að innkalla Tyggjótrúð í kjölfar óhapps er varð í síðustu viku en þá lenti barn í lífsháska eftir að tyggjókúla sat föst í hálsi þess.

Að höfðu samráði við Herdísi Storgaard framkvæmdastjóra Forvarnahússins hefur sú ákvörðun verið tekin að innkalla Trúðaís frá fyrirtækinu og hætta framleiðslu hans, í núverandi mynd, þegar í stað.

Samkvæmt upplýsingum frá Forvarnarhúsi var þriggja ára drengur að borða ísinn  þegar atvikið átti sér stað. „Í ísnum var frosin tyggjókúla sem hafði runnið ofan í öndunarveg hans. Litlu munaði að illa færi því drengurinn var orðinn blár en það má þakka snörum handtökum viðstaddra að ekki fór verr.

Samkvæmt skráðum tilfellum hjá Forvarnahúsinu er þetta sjöunda alvarlega tilfellið á tæpum 12 árum þar sem barn lendir í lífshættu við það að boða ís með tyggjókúlu í," að því er segir í tilkynningu frá Forvarnarhúsi.

Í tilkynningu frá Kjörís kom upp svipað tilfelli fyrir tíu árum á sömu vöru. Var þá ákveðið að setja varúðarmerkingu á vöruna þar sem tekið var fram að ísinn gæti reynst varasamur börnum undir fimm ára aldri.

Kjörís mun ekki setja vöruna aftur á markað fyrr en ljóst þykir að börnum stafi engin hætta af neyslu hans, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert