Iceland Express harmar árásir formanns FÍA

Merki Iceland Express.
Merki Iceland Express.

Iceland Express harmar árásir formanns FÍA og starfsmanns Icelandair á fyrirtækið á vef Morgunblaðsins og jafnframt þeim rangfærslum sem formaðurinn virðist vísvitandi beita í áróðursskyni til að koma höggi á félagið.

Í morgun var birt frétt á mbl.is þar sem vísað er til vefjar Félags íslenskra atvinnuflugmanna þar sem fólk er hvatt til þess að velja íslenskt en þar sagði að ef farmiði sé keyptur með félagi eins í Iceland Express sé verið að kaupa miða með breska flugfélaginu Astreus.

„Hið rétta í málinu er að þrátt fyrir að flugvélar þær sem Iceland Express notast við séu leigðar erlendis frá, þá er starfsfólk félagsins að langstærstum hluta íslenskt, þ.m.t., flugliðar- og flugfreyjur félagsins, skrifstofufólk  og þjónustuaðilar hérlendis. Rekstur Iceland Express skapar því fjölda starfa á Íslandi og miklar tekjur í formi launa og skattgreiðslna, svo ekki sé minnst á allan þann gjaldeyri sem farþegar Iceland Express færa inn í íslenska þjóðarbúið á meðan þeir dveljast hér.

Iceland Express þykir leitt að fá slíkar sendingar á tímum sem þessum, þegar öllu máli skiptir fyrir okkur að standa saman, halda hjólum atvinnulífsins gangandi og viðhalda eðlilegri samkeppni á markaði, til hagsbóta fyrir alla neytendur.

Iceland Express er íslenskt fyrirtæki sem hefur með mikilli þrautseigju innleitt samkeppni í flugi til og frá landinu. Íslendingar hafa ekki gleymt einokun fyrri ára eða dýru fargjöldunum þegar að aðeins útvaldir ferðuðust reglulega til útlanda.

Við hvetjum formann FÍA til að leggja niður vopn og taka með í reikninginn alla þá sem vinna hjá Iceland Express. Þeir hafa líka fyrir fjölskyldum að sjá og hafa sama rétt á atvinnuöryggi og umbjóðendur formannsins. Við hljótum að gera þá sanngjörnu kröfu að hagsmunabarátta einnar stéttar, komi ekki niður á fjölmörgum öðrum Íslendingum sem starfa í ferðaþjónustu," að því er segir í yfirlýsingu frá Iceland Express.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert