Ólíklegt að Bretar komi - utanríkisráðuneytið sparar

Fátt nýtt var að frétta eftir ríkisstjórnarfund af Alþjóða gjaldeyrissjóðnum og Icesave deilunni. Geir H, Haarde forsætisráðherra  segir að lánsumsókn Íslendinga hafi farið héðan þriðja nóvember en hennar sé ekki dreift fyrr en stjórnarfundur sé boðaður.

Ráðherrann sagði að haft hefði verið samband við þær þjóðir sem eiga sæti í stjórn sjóðsins og þær upplýsingar fengist að umsókn Íslands hefði víðtækan stuðning. Svo virtist þó að Bretar og Hollendingar væru að tefja málið meðan Icesave-deilan væri óleyst.  Þau sögðust telja víst að við ættum vísan stuðning meðal annarra þjóða í þessari deilu en það hafi þó ekki verið látið á það reyna.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir ekki búið að ákveða hvort breskar flugsveitir komi hingað til lands í loftrýmiseftirlit. Það sé þó vegna þess að Utanríkisráðuneytið þurfi að skera niður kostnað og sé ekki tilbúið að greiða fimmtíu milljónir fyrir þetta. Viðræður standi yfir við Breta um það. Niðurstaða sé væntanleg í dag.

Hún telur óæskilegt að blanda þessum tveimur málum saman. Það verði að stuðla að því að leysa deiluna við Breta en ekki að magna hana. 

Ráðherrarnir voru spurðir um hvaða upplýsingar Finnar teldu sig þurfa til að standa við lánsloforð til Íslendinga.  Geir H. Haarde, forsætisráðherra, sagði að varla geti verið um stórmál að ræða. Það væri sjálfsagt að bregðast við ósk um frekari upplýsingar.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert