Íslenskir læknar hyggja á útrás

Augnlæknir að störfum
Augnlæknir að störfum

Greint er frá því á fréttavef danska dagblaðsins Berlingske Tidende að íslenskir læknar hyggi nú á útrás til Norðurlandanna til að afla gjaldeyristekna. Segir þar m.a. að augnlæknastofan Sjónlag Eye Center  bjóði til dæmis Norðurlandabúum upp á augnaðgerðir á mun hagstæðara verði en í heimalöndunum. 

Haft er eftir Ólafi Má Björnssyni, forstjóra stöðvarinnar, að gengi krónunnar geri það að verkum að mjög hagstætt sé fyrir Norðurlandabúa að leita sér lækninga á Íslandi. Þannig kosti til dæmis leiseraðgerð á Íslandi 12.000 danskar krónur en sambærileg aðgerð í Danmörku kosti 22 til 26.000 danskar krónur.

Þá segir hann töluvert hafa verið um fyrirspurnir um lækningaferðir hingað til lands, bæði frá Danmörku og Noregi. Einnig er greint frá því í frétt blaðsins að lýtalæknar og tannlæknar á Íslandi kanni nú möguleikana á að laða Norðurlandabúa hingað til lands til aðgerða hér. 

„Læknarnir okkar eru menntaðir í Skandinavíu, Bandaríkjunum og Bretlandi þannig að gæði læknisþjónustu eru mjög mikil. Það er því tímabært að auka útflutning í heilsugeiranum. Við höfum upp á fleira en lopapeysur, Bláa lónið og fallega náttúru að bjóða,” segir Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert