Dýrustu dagarnir sigla hjá

Loðna
Loðna mbl.is/Frikki

„Þetta eru dýrustu dagar ársins og það er ekki gott ef þeir sigla hjá hver af öðrum,“ sagði Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, í gær. Hann er áhyggjufullur vegna þess hve lítið hefur fundist af loðnu en verðmæti loðnunnar er mest um þessar mundir. „Hver dagur er hundraða milljóna króna virði og gjaldþrota þjóð veitir ekki af,“ segir Sigurgeir.

Fyrstu loðnunni var reyndar landað í Vestmannaeyjum í gær er Kap kom með um 400 tonn úr leitarkvótanum og fór farmurinn að mestu í frystingu. Hrognafylling var um 18% og fer hrygnan á Japansmarkað, en hængurinn til Rússlands. Þá landaði Ásgrímur Halldórsson rúmlega 700 tonnum á Höfn í Hornafirði. Ekki er talið að margir dagar séu í hrygningu.

Sigurgeir segir að loðnan skipti gífurlega miklu máli fyrir atvinnulífið í Vestmannaeyjum. Sem dæmi nefnir hann að loðnuvertíðin standi undir yfir 25% af árstekjum félagsins í „eðlilegu árferði“.

Loðnan var einnig dyntótt í fyrravetur og þá þurfti að gera hlé á veiðum þar sem Hafró hafði ekki tekist að mæla upp í útgefinn byrjunarkvóta. Síðan kom sterk ganga flestum að óvörum upp úr Reynisdýpi og að lokinni mælingu þar var gefinn út 207 þúsund tonna kvóti samtals, en rúm 150 þús. tonn komu í hlut Íslendinga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert