Bakkalábandið sló í gegn

Margrét Sighvatsdóttir syngur „Suður um höfin“, með sex börnum sínum …
Margrét Sighvatsdóttir syngur „Suður um höfin“, með sex börnum sínum í Bakkalábandinu, við setningu menningarviku í Grindavík. mbl.is/Þorsteinn Kristjánsson

Bakkalábandið sló í gegn við opnun menningarviku í Grindavík, þeirrar fyrstu sem þar er haldin. Hljómsveitina skipa sex systkini og tveir makar, öll úr Vísisfjölskyldunni svonefndu.

Menningarvakan „Menning er mannsins gaman“ stendur til 28. mars. Kristinn Reimarsson, frístunda- og menningarfulltrúi Grindavíkurbæjar, segir að markmiðið sé að draga fram í dagsljósið alla þá fjölmörgu Grindvíkinga sem stunda list sína í heimahúsum eða bílskúrum. Einnig koma við sögu landsþekktir listamenn sem eiga rætur í Grindavík.

Menningarvikan var sett í Saltfisksetrinu í dag. Aðalnúmerið átti Bakkalábandið sem í fyrsta skipti kom fram opinberlega. Systkinin Pétur, Páll Jóhann, Sólný, Kristín, Svanhvít og Margrét Pálsbörn skipa sveitina ásamt Ársæli Mássyni og Sveini Guðjónssyni. Systkinin eru börn Margrétar Sighvatsdóttur og Páls H. Pálssonar útgerðarmanns og stofnanda Vísis hf. og hafa því öll komið nálægt saltfiski um ævina. Þau sungu meðal annars lag eftir móður sína. Einnig fluttu þau Grindavíkurblús, erlent lag við nýjan texta eftir Valgeir Skagfjörð.

Um 200 manns var við athöfnina og fékk hljómsveitin afar góðar viðtökur á þessari frumraun sinni á opinberum vettvangi.

Meðal dagskráratriða menningarvikunnar um helgina er að í kvöld verður Grindvíska atvinnuleikhúsið með dagskrá í Kvennó og á sunnudagskvöld verður Kaldalónskvöld í Flagghúsin.

Um næstu helgi koma rithöfundarnir Guðbergur Bergsson og Einar Már Guðmundsson fram og mun sá síðarnefndi fjalla um verk Guðbergs.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert