Sigurjón lánaði sjálfum sér fé

Sigurjón Árnason er hann gegndi störfum bankastjóra Landsbankans.
Sigurjón Árnason er hann gegndi störfum bankastjóra Landsbankans. MYND/Sverrir Vilhelmsson

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, segir veðskuldabréfið sem gengur um netið í nafni Sigurjóns Þ. Árnasonar, fyrrum bankastjóra Landsbankans, ekki það sem sé í gildi. Sigurjón hafi tekið lán hjá lífeyrissjóði í vörslu Landsbankans; Fjárvörslureikningi 3 NBI hf. Lífeyrissjóðurinn sé hans einkaeign. Slíkt sé heimilt samkvæmt lögum: ,,Hann tekur því lán hjá sjálfum sér." Lánið er kúlulán til tuttugu ára og ber 3,5% vexti með veði í hans helmingi húseignar þeirra hjóna. Sigurður hrekur þær sögusagnir að nýi Landsbankinn hafi veitt Sigurjóni lánið.

Á veðskuldabréfinu sem gengur á netinu stendur að Sigurjón Þ. Árnason sé veitt lán upp á 40 milljónir króna bundið vísitölu neysluverðs til tuttugu ára. Fjöldi afborgana sé ein, þann 20. nóvember 2009, en vextir reiknist frá 20. nóvember 2028. Miðað við það bæri lánið í raun enga vexti. Fram kemur að kröfuhafi sé Fjárvörslureikningur 3 NBI hf. og því hafa menn ályktað að nýi Landsbankinn hafi veitt lánið á þessum kostakjörum og það eftir að hann fór í ríkiseigu.

Sigurður segir að skjalinu hafi verið þinglýst áður en mistökin uppgötvuðust. ,,Það var misritun í skjalinu þegar það fór í þinglýsingu og skjalið sem leiðréttir það vantar [við það sem gengur á netinu,]" segir Sigurður sem er lögmaður útgefandans. Hann hafi verið beðinn um að útbúa skjalið og hafi upphaflega fengið röngu upplýsingarnar. Sigurður segir leiðrétta skjalinu einnig hafa verið þinglýst. Í því standi að lánið sé greitt með einni afborgun 20. nóvember 2028, það beri vexti frá 20. nóvember 2008: ,,Skilmálabreytingin er gefin út 3. desember 2008."

Lánið ber 3,5% vexti sem þykja lágir. Spurður um vextina og hvers vegna hann setur vexti á láni frá sér til sín segir Sigurður að Sigurjón vilji væntanlega þurfa að greiða vexti af eigin skuldum í framtíðinni: ,,Hann vill hafa þetta á hreinu."

Sigurjón var bankastjóri Landsbankans þegar hann féll í byrjun október á síðasta ári. Hann hætti formlega störfum hjá Landsbankanum 10. október síðastliðinn, en sinnti ráðgjafarstörfum þar áfram fram eftir hausti.

Hægt er að nálgast upplýsingar um veðskuldir á eignum hjá Fasteignaskrá Íslands gegn vægu gjaldi. Upplýsingarnar eru opinberar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert