Skeiðará horfin í Gígjukvísl

Þarna rann Skeiðará um helgina.
Þarna rann Skeiðará um helgina. Mynd rikivatnajokuls.is

Allt vestara útfall Skeiðarár rennur nú í Gígjukvísl, sem er vestar á Skeiðarársandi. Miklar breytingar urðu á rennsli Skeiðarár um helgina. Reynir Gunnarsson, starfsmaður Vegagerðarinnar, skoðaði aðstæður í gær og segir þetta ekki koma mjög á óvart. Hins vegar hafi menn ekki átt von á að þetta gerðist svona hratt.

Á vefnum Ríki Vatnajökuls má sjá mynd af Skeiðará, eða því sem eftir er af henni, og nánar um orsakir þessa.

Reynir segir að jökullinn hafi hopað nokkuð en þó aðallega þynnst og þá fer vatnið að komast undir hann með þessum afleiðingum.

Fari Skeiðará öll í Gígjukvísl eru miklar líkur á að gera þurfi ráðstafanir til að halda Gígju í skefjum, einkum ef hlaup koma í hana. Eins og er telur Reynir mannvirki ekki vera í hættu. Brúin yfir Gígju sé mjög öflug og traust og þar sem séð var fram á að þetta gæti gerst var brúin hönnuð þannig að hægt væri að lengja hana.

Reynir Gunnarsson fór í dag með flugvél yfir Skeiðarársvæðið og segir að austurkvísl árinnar sé nánast horfin úr sínum farvegi undir brúnni, þar sé aðeins örlítil spræna og um leið hefur vatnsmagn Gígju aukist.

Hann telur ólíklegt að Skeiðará fari í sinn gamla farveg aftur.

„Þetta er líklega komið til að vera,“ segir hann.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert