Engin teikn um stóra skjálfta

Jarðskjálftar hafa m.a. mælst við Herðubreið.
Jarðskjálftar hafa m.a. mælst við Herðubreið. Rax / Ragnar Axelsson

Jarðskjálftar við Herðubreið og Bárðarbungu síðustu sólarhringa gefa ekki tilefni til þess að ætla að stórir atburðir séu í vændum. Þetta er mat Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings.

Snarpur jarðskjálfti sem mældist 3,6 á Richters-kvarða varð aðfaranótt laugardagsins og annars skjálfti, 2,9 Richter, sem átti upptök sín suður af af Herðubreið, kom undir morgun sl. nótt.

Jörð hefur víða skolfið við landið undanfarið. Dagana 10. til 16. ágúst voru á mælum staðsettir 285 skjálftar. Stærstu skjálftar umræddrar viku mældust tæpa 200 km norður af Kolbeinsey, sá stærsti 4,1 stig. Um 60 skjálftar mældust rétt suður af Herðubreið.

,,Það er ekkert óvenjulegt við þetta," segir Páll Einarsson og bendir á að bæði Bárðarbunga og Herðubreið séu á flekaskilum jarðskorpunnar.

Jarðvísindamenn fylgjast einnig með þrýstingi með tilliti til hugsanlegra eldsumbrota. Þannig segir Páll Einarsson að þrýstingur á Heklu sé orðinn meiri nú en var fyrir síðasta gos þar og samkvæmt sömu mælingum sé ólga einnig undirliggjandi í Grímsvötnum og Upptyppingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert