Verulega neikvæð áhrif vegna lagningar Suðvesturlína

Reuters

Skipulagsstofnun telur að neikvæðustu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda við Suðvesturlínur, verði sjónræn áhrif og áhrif á landslag og þar með einnig á útivist og ferðaþjónustu. Skipulagsstofnun telur að heildaráhrif fyrirhugaðra framkvæmda m.t.t. þessara umhverfisþátta verði óhjákvæmilega verulega neikvæð.

Skipulagsstofnun hefur gefið álit sitt um mat á umhverfisáhrifum vegna Suðvesturlína, styrkingar raforkuflutningskerfis á Suðvesturlandi.

Um er að ræða umfangsmikla framkvæmd þar sem fyrirhugað er að reisa 500 ný möstur og leggja milli 180 og 190 km af loftlínum og um 50 km af jarðstrengjum. Áhrifasvæði línanna mun ná frá Hellisheiði til vestasta hluta Reykjanesskaga og þær munu liggja á löngum köflum um hverfisverndarsvæði, svæði sem eru á náttúruminjaskrá og fólkvanga, stofnaða sérstaklega til útivistar og geta framkvæmdirnar rýrt gildi þessara svæða til útivistar.

Jafnframt liggja línurnar á köflum í grennd við fjölförnustu þjóðvegi landsins, Reykjanesbraut og Suðurlandsveg. Þó að ljóst sé að það er jákvætt að tæplega 100 km af núverandi línum verða fjarlægðar þá eykst umfang raforkulína og mastra talsvert miðað við núverandi aðstæður þegar á heildina er litið.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum verði skipt niður í fimm áfanga og reiknað með að vinna við verkið geti hafist vorið 2010 og standi yfir, með einhverjum hléum, til ársins 2017.

Samkvæmt raforkuspá er gert ráð fyrir u.þ.b. 40% almennri álagsaukningu á Reykjanesskaga til ársins 2030 og að frekari atvinnuuppbygging muni flýta þeirri þróun. Framkvæmdirnar felast í nýbyggingu háspennulína og breytingum, tilfærslum og niðurrifi á núverandi línum.

Fyrirhugaðar háspennulínur liggja að mestu samsíða eldri línum og verður orkuflutningskerfið frá Hellisheiði að nýju tengivirki við Hrauntungur í Hafnarfirði byggt upp á 400 kV spennu en á 220 kV spennu um Reykjanesskaga. Jafnframt þarf að tengja kerfið við fyrirhugaðar virkjanir við Hverahlíð og Bitru á Hellisheiði og styrkja tengingar frá starfandi virkjunum á Reykjanesi og í Svartsengi. Við kerfið tengist einnig orkufrek starfsemi, s.s. netþjónabú og fyrirhugað álver í Helguvík.

1. Hellisheiði að Kolviðarhóli, lengd línuleiðar 11,8 km
2. Kolviðarhóll að Sandskeiði, lengd línuleiðar 9,7 km
3. Sandskeið að Geithálsi, lengd línuleiðar 7,4 km
4. Geitháls að Hamranesi, lengd línuleiðar 15,2 km
5. Sandskeið að Hrauntungum, lengd línuleiðar 23,7 km
6. Hrauntungur að Hamranesi og Straumsvík, lengd línuleiðar 5 km
7. Hrauntungur að Njarðvíkurheiði, lengd línuleiðar 27 km
8. Njarðvíkurheiði að Reykjanesvirkjun, lengd línuleiðar 18,7 km
9. Njarðvíkurheiði að Fitjum, lengd línuleiðar 3,2 km
10. Fitjar að Helguvík, lengd línuleiðar 8,6 km

Fyrirhugaðar háspennulínur verða lagðar um mosagróin nútímahraun, sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum, á meirihluta línuleiðarinnar frá Hellisheiði út á Reykjanes. Skipulagsstofnun telur að þegar litið er til heildaráhrifa fyrirhugaðra framkvæmda á jarðmyndanir og gróður verði áhrifin talsvert neikvæð þar sem nútímahraun munu raskast á óafturkræfan hátt á alls tæplega 30 ha landssvæði og nútímahraun eins og um er að ræða á áhrifasvæði framkvæmdanna, þekja lítinn hluta jarðar og sá gróður sem þar vex því frekar fátíður.

Skipulagsstofnun telur að nýlagning lína geti haft talsverð neikvæð áhrif á fugla á löngum köflum fyrirhugaðar línuleiðar vegna áflugshættu og búsvæðaröskunar, auk þess sem línuleið mun á kafla liggja í nálægð við gamlan varpstað hafarna. Á móti koma jákvæð áhrif vegna fyrirhugaðs niðurrifs núverandi lína um Heiðmerkursvæðið. Það er því niðurstaða Skipulagsstofnunar að heildaráhrif á fuglalíf verði nokkuð neikvæð vegna lagningar  Suðvesturlína.

Skipulagsstofnun telur að við leyfisveitingar þurfi að setja eftirfarandi skilyrði:

Landsnet þarf að leggja fram áætlun um vöktun á áflugshættu fugla á raflínur við Fóelluvötn,  Snorrastaðatjarnir og í nágrenni Reykjanesvirkjunar. Í áætluninni þarf að koma fram að ákvörðun verði tekin um merkingar línanna í ljósi niðurstaðna í samráði við Umhverfisstofnun.

Úrskurður Skipulagsstofnunar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert