„Þá eruð þið bara vandamál fyrir framkvæmdastjórnina“

Lilja Mósesdóttir.
Lilja Mósesdóttir. mbl.is/Ásdís

Sendinefnd þriggja íslenskra þingmanna, sem sóttu fund Evrópuráðsþingsins í Strassborg, átti í fyrradag fund með breskum og hollenskum þingmönnum um Icesave-málið.

„Við útskýrðum fyrir þeim hugsunina á bak við helstu fyrirvarana [við ríkisábyrgðinni],“ segir Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, en auk hennar sátu Birkir Jón Jónsson, varaformaður Framsóknarflokksins, og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, fundinn.

„Þeir sýndu skilning á að Íslendingar vildu reyna að standa við skuldbindingar sínar, en við skyldum átta okkur á því að Ísland væri í veikri stöðu og í mun veikari stöðu ef við gengjum ekki frá Icesave-samningunum, sérstaklega gagnvart Evrópusambandinu,“ segir Lilja.

„Það kom mér mjög á óvart. Ég spurði hvort þeir væru að tengja saman Icesave og ESB-umsókn okkar? Já, svöruðu þeir. Þið verðið að átta ykkur á því að ef þið verðið ekki búin að ganga frá Icesave, þá eruð þið bara vandamál fyrir framkvæmdastjórnina,“ segir Lilja.

Hún segist sjálf hafa verið hlynnt því að skoða aðildarsamning að ESB, „en eftir þessa hótun breska þingmanns Verkamannaflokksins varð ég afhuga aðild að Evrópusambandinu“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert