„Lónið er horfið“

Miklir vatnavextir fylgja eldgosinu í Eyjafjallajökli.
Miklir vatnavextir fylgja eldgosinu í Eyjafjallajökli. Stefán

„Lónið er horfið. Þetta er bara einn árfarvegur niður,“ segir Gunnar Sigurðsson vatnamælingamaður sem var upp við Gígjökul þegar flóð kom niður jökulinn í dag. Hann segir umhverfið við jökulinn mikið breytt og sér ekki alveg fyrir sér hvernig hægt verður að komast í Þórsmörk á næstunni.

Áður en gosið í Eyjafjallajökli hófst var allstórt lón við Gígjökul, sem er skriðjökull sem gengur niður af Eyjafjallajökli. Á rann síðan úr lóninu í Markarfljót.

Gunnar sagði að mikið væri búið að ganga á þarna. „Þar sem var gróið land er núna þakið jökulruðningi. Það hefur sópast ofan af öllu þarna.“

Gunnar fór upp að jöklinum til að setja upp mæli í árfarveginn. Hann sagði að aðstæður þarna væru það breyttar að erfitt væri að koma mælitækjum fyrir með góðu móti. Mælir sem var í gamla lóninu fór í fyrsta hlaupinu.

„Þetta er allt laust og allt á hreyfingu. Það eru því fáir fastir punktar til að byggja á. Við þurfum að festa skynjar þannig að hann komist út í vatnið í flóðunum og festa skráningartæki og símasendi á öruggum stað. Það er ekki einfalt að gera þetta. “

Gunnar sagði að hann væri nú að skoða hvort ekki væri betra að koma mælinum fyrir við Þórólfsfell. „Þessir mælar eru hugsaðir sem hluti af viðvörunarkerfi þannig að menn sjái hvað er að gerast á nóttunni. Á daginn er svæðið vaktað.“

„Þetta var stórfengleg“

Gunnar horfði á flóðið koma niður af jöklinum í dag. „Þetta var stórfenglegt þó að þetta væri væntanlega miklu minna en það sem kom í gær. Það kom svartur úði á undan þessu og svo gusaðist vatnið undan jöklinum. Þetta kom svona í bylgjum. Það skrúfaðist fyrir og kom svo aftur. Væntanlega hefur fyrsta gusan verið stærst,“  sagði Gunnar.

Þessi mynd var tekin af Lóninu neðan við Gígjökul þann …
Þessi mynd var tekin af Lóninu neðan við Gígjökul þann 1. apríl sl. Þetta lón er núna horfið. mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert