Eðlilegt að Magma skoði málin

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra mbl.is/Árni Sæberg

„Það er ekki óeðlilegt að menn skoði það umhverfi sem þeir eru að fjárfesta í og velti fyrir sér framtíðinni,“ sagði Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, aðspurð um þau orð forstjóra Magma Energy að fyrirtækið íhugi að fresta eða hætta við kaup á HS Orku. 

Katrín taldi að umræðan hér á landi hafi snúist of mikið um Magma Energy eitt og sér. „Það leysir ekki þennan eignarhlut sjálfkrafa úr höndum einkaaðila þótt þeir hætti við kaupin,“ sagði Katrín. „Geysir Green Energy á þennan hlut og fyrirtækið er í ákveðinni meðferð. Mér finnst að fólk hafi talið að málið leystist við að Magma Energy færi. En það er ekki svo.“

Hún sagði að hætti Magma Energy við kaupin  þá verði hluturinn áfram í eigu núverandi eigenda, Geysis Green. Þeir muni þá væntanlega setja hann aftur í söluferli. Til stóð að ljúka yfirtöku Magma Energy á HS Orku í þessari viku. Er það ekki slæmt fyrir frekari erlenda fjárfestingu ef þau kaup renna út í sandinn?

„Nei, það tel ég ekki,“ sagði Katrín. Hún benti á að málið varði orkuiðnaðinn hér á landi og óttast ekki að málið geti haft víðtæk áhrif. „Ég heyri á öðrum erlendum fjárfestum sem eru að skoða Ísland að þeir vita að orkuframleiðslan er viðkvæmur þáttur í efnahagslífi okkar og atvinnulífi. Ég hef ekki heyrt að þetta fæli menn frá þátttöku á öðrum sviðum. Alls ekki.“

Hún sagði að orkugeirinn sé alls staðar í heiminum viðkvæmur fyrir einkafjármagni. „Það vita erlendir fjárfestar jafn vel og innlendir. Þess vegna tel ég ekki að þetta muni hafa áhrif á erlenda fjárfesta og skoðun þeirra á öðrum sviðum fjárfestinga.“

Katrín kvaðst telja það skipta mestu að hér ríki stöðugt umhverfi og að stefna verði mótuð um hvernig það umhverfi eigi að vera til lengri tíma litið. Síðan verði menn að laga sig að því umhverfi með jákvæðum hætti. Með því móti verði ekki lengur litið á einstök kaup í orkugeiranum sem upphaf og endi alls. 

„Við skulum líka gera okkur grein fyrir því að þeir sem reka orkufyrirtækin taka erlend lán og þau eru ekki tekin hjá góðgerðastofnunum. Það þarf að fara yfir allt þetta umhverfi í heild sinni,“ sagði Katrín. Hún kvaðst ekki óttast aðkomu einkaaðila að orkugeiranum, en það sé ekki sama hvernig eða hvers konar hún sé. 

„Ég tel t.d. skynsamlegra að einkaaðilar komi inn sem fjárfestar tímabundið, t.d í verkefnafjármögnun um einstakar framkvæmdir með opinberum aðilum, fremur en að hið opinbera fari alfarið í erlendar lántökur vegna framkvæmda,“ sagði Katrín.

Hún telur mikilvægt að menn sýni því ferli sem ríkisstjórnin setti af stað í síðustu viku skilning og einnig biðlund. „Ég tel að á endanum verði allir þakklátir fyrir ferlið sem þarna fer af stað. Það mun draga fram upplýsingar um hvernig þessi einkavæðing fór fram í upphafi.

Einnig upplýsingar um hvað það mun kosta ríkið að fara inn í HS Orku í gegnum hinar ýmsu leiðir. Þetta hljóta að vera upplýsingar sem menn fagna að fá í hendur til að geta tekið yfirvegaðar ákvarðanir,“ sagði Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert