Ómögulegt að loka síðunni

Kristinn Hrafnsson hefur starfað mikið undanfarið með Wikileaks
Kristinn Hrafnsson hefur starfað mikið undanfarið með Wikileaks

„Wikileaks er með netþjóna um allan heim sem spegla hver annan svo út frá tæknilegum forsendum væri ómögulegt fyrir yfirvöld á Íslandi að loka síðunni,“ segir Kristinn Hrafnsson, blaðamaður, í samtali við mbl.is.

Hann hefur sem kunnugt er starfað í ríkum mæli með aðstandendum vefsíðunnar Wikileaks undanfarið ár og gefur lítið út fyrir orð Liz Cheney í viðtali á Fox fréttastöðinni um að loka skuli Wikileaks síðunni.

„Orð þessarar ágætu konu sýna fullkomna vanþekkingu á viðfangsefninu og eflaust jafnmikla vanþekkingu á málefninu og málstaðnum sem Wikileaks er að berjast fyrir. Enda ekki að undra miðað við faðernið.“

Þá segir Kristinn ótrúlegt að heyra t.d. yfirmenn hermála í Bandaríkjunum dylgja um blóði drifnar hendur Julian Assange og finnst skjóta skökku við að hinir sömu setji sig á svo háan, móralskan hest.

Einnig séu það eintómar sögusagnir að birting leyniskjalanna hafi leitt til dauða fólks sem þar sé getið.

 „The Times í Lundúnum kannaði afdrif þeirra sem eru nafngreindir í leyniskjölunum og fundu einn mann sem er látinn. En hann lést fyrir tveimur árum svo það er erfitt að setja blóð hans á hendur Julian Assange eða annarra hjá Wikileaks.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert