Vilja auka innflutning á kjúklingum

Samtök verslunar og þjónustu vilja að innflutningur á kjúklingi verði aukinn til að bregðast við kjúklingaskorti í verslunum hér á landi. Segja samtökin í bréfi til landbúnaðarráðherra, að mikilvægt sé að sá innflutningur verði án aðflutningsgjalda.

Í bréfinu segir, að viðvarandi salmonellusmit hjá innlendum kjúklingaframleiðendum hafi leitt það af sér að eins og sakir standa séu þeir  engan veginn í stakk búnir til að anna innanlandsþörf. Engar líkur séu á að breyting verði á þessu á næstunni þar sem sjúkdómurinn hafi nú komið upp 49 sinnum á þessu ári í íslenskum búum.

„Samtök verslunar og þjónustu telja einsýnt að bregðast verði við þessari stöðu með því að auka innflutning á kjúklingi. Það er eina raunhæfa leiðin til þess að bregðast við vandanum. Neytendur í landinu eiga skýlausan rétt til þess að eiga greiðan aðgang að þessari fæðu sem nýtur sífellt meiri vinsælda. Verslunin í landinu gerir þá kröfu að geta boðið neytendum upp á úrval af kjúklingi hér eftir sem hingað til. Ef ekki verður brugðist við vandanum með þessum hætti er fyrirséð að verð á öðrum kjötvörum muni hækka og hafa svínabændur m.a. boðað 10% hækkun á svínakjöti frá og með áramótum," segir í bréfinu.

Segja samtökin, að ljóst sé að ekki verði unnt að sinna þörfum markaðarins og uppfylla óskir neytenda án innflutnings.  „Það getur ekki verið hlutverk ráðuneytisins að standa fyrir gamaldags neyslustýringu og koma í veg fyrir aðgengi íslenskra neytenda að heilnæmri matvöru. Að mati samtakanna eru engin efnisleg rök til að standa í vegi fyrir þessum innflutningi, þar sem ekkert kjöt er flutt til landsins nema heilbrigði þess sé vottað af þar til bærum aðilum," segir síðan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert