Rannsókn gerð á Íbúðalánasjóði

mbl.is/Sverrir

Alþingi samþykkti í dag með 50 samhljóða atkvæðum þingsályktunartillögu um að fari fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs. Var því lýst yfir við lokaafgreiðslu málsins, að það væri sameiginlegur skilningur að rannsaka eigi starfsemi sjóðsins frá stofnun hans árið 1999 þegar Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna voru sameinaðir. 

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var fyrsti flutningsmaður tillögunnar en að henni stóðu einnig fleiri þingmenn úr Samfylkingunni auk þingmanna úr Sjálfstæðisflokki og Hreyfingunni. Vildu þingmennirnir að fram færi rannsókn á starfsemi Íbúðalánasjóðs frá aðdraganda breytinganna á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs sem hrint var í framkvæmd á árinu 2004.

Í greinargerð með tillögunni var vísað til þeirrar ályktunar rannsóknarnefndar Alþingis, að breytingar á fjármögnun og lánareglum Íbúðalánasjóðs hafi stuðlað að verulegu ójafnvægi í hagkerfinu og falið í sér ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda að falli bankanna.

Því þurfi að fara fram sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi sjóðsins. Rannsaka þurfi ákvörðun og framkvæmd breyttrar fjármögnunar þegar íbúðabréf leystu húsbréf af hólmi og áhrif rýmri útlánareglna. Rannsaka þurfi fjármögnun Íbúðalánasjóðs á útlánum viðskiptabanka og sparisjóða og áhættustýringu sjóðsins.

Meirihluti allsherjarnefndar lagði til talsverðar breytingar á tillögunni og vísar m.a. til þess, að rannsóknin skuli fara fram í samræmi við ákvæði lagafrumvarps  um rannsóknarnefndir, sem forsætisnefnd þingsins hefur lagt fram. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, lagði síðan fram sérstaka breytingartillögu um að rannsóknin skuli ná aftur til þess tíma þegar Íbúðalánasjóður var stofnaður árið 1999. 

Þegar greidd voru atkvæði um tillöguna í dag las Róbert Marshall, þingmaður Samfylkingarinnar, og formaður allsherjarnefndar, upp yfirlýsingu þar sem segir, að það sé sameiginlegur skilningur allsherjarnefndar og flutningsmanna tillögunnar, að rannsaka eigi sjóðinn frá stofnun hans frá árinu 1999 og ástæðu þess að hann var stofnaður með samruna Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna.

Í kjölfarið lýsti Vigdís því yfir að hún drægi breytingartillögu sína til baka í ljósi þess, að tekið hefði verið tillit til sjónarmiða hennar og þingmanna Framsóknarflokksins og rannsóknin verði í víðu samhengi en ekki vísað í afmörkuð ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert