Nýjungar upp á gamla mátann

Sigurbjörg, Sigþór og Andri eru ánægði með þær góðu breytingar …
Sigurbjörg, Sigþór og Andri eru ánægði með þær góðu breytingar sem orðið hafa í Suðurveri. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Lokað hefur verið um tveggja vikna skeið í bakaríi Bakarameistarans í Suðurveri. Þó er ekki þar með sagt að allt hafi verið með kyrrum kjörum þar á meðan. Síður en svo! Á þessum tveimur vikum hefur hver sólarhringur verið nýttur eins vel og hægt var og bakaríið hreinlega endurnýjað.

Systkinin Andri og Sigurbjörg reka Bakarameistarann ásamt föður sínum og stofnandanum Sigþóri Sigurjónssyni og hafa haft í nógu að snúast við að gera gera bakaríið í Suðurveri einnig að kaffihúsi.

Stein- og pitsuofnar

Þegar gera á eins viðamiklar breytingar og í þessu tilviki er eins gott að gæta vel að undirbúningi til að hlutirnir gangi hratt fyrir sig. Tvær vikur eru ekki svo langur tími þegar allt kemur til alls en nokkrum tíma hefur verið varið í að taka stórar ákvarðanir um aukið vöruúrval, nýjar innréttingar og fleira. Þremenningarnir hafa farið nokkrum sinnum út til Þýskalands til tækjakaupa enda bakaríið byggt upp að þýskri fyrirmynd.

„Við erum búin að taka húsnæðið alveg í gegn, skipta um allar lagnir, veggi og gólf,“ segir Sigurbjörg um helstu þrekvirkin sem unnin hafa verið á síðustu tveimur vikum. „Nánast öll tæki hafa verið endurnýjuð. Við erum með nýja ofna í búðinni auk steinofna og pitsuofns. Við höfum útbúið horn þar sem verður bakað og eldað allan daginn,“ segir Andri.

Viðskiptavinir geta fylgst með bakara og kokki að störfum á meðan þeir njóta veitinganna þar sem hluti starfseminnar hefur verið færður inn í aðalrýmið. Sjálft aðalrýmið hefur stækkað umtalsvert frá því sem áður var og er húsnæðið nú um 80 fermetrum stærra og geta 55 manns sest þar að snæðingi.

Sigurbjörg segir að mikil áhersla sé lögð á að viðskiptavinurinn fái vöruna sem ferskasta. „Við bökum jafnt og þétt yfir daginn, tökum rúnnstykkin úr ofninum, smyrjum þau og setjum á disk viðskiptavinarins þannig að hann fær þetta alveg nýtt og ferskt,“ segir hún.

Kræsingar og kruðirí

Hægt verður að velja úr enn fleiri vörutegundum en áður og munu ýmsar nýjungar prýða hillur bakarísins í Suðurveri. „Fólkið á að þekkja okkar vöru þó að við komum með nýjungar. Við munum bjóða upp á ommilettur og verðum með pitsur í hádeginu sem við bökum í okkar stíl. Við erum vissulega með þekkta vöru þannig að það má ekki breyta of miklu,“ segir Sigurbjörg.

Það verður því boðið upp á gott úrval bakkelsis og brauða sem verður með sama handbragði og viðskiptavinir Bakarameistarans þekkja en tegundirnar verða margar. „Við erum búin að sækja okkur nýjar uppskriftir en þetta verður bakað á gamla mátann í steinofninum í búðinni fyrir framan fólkið,“ segir Andri.

Þó svo að uppskriftirnar liggi ekki fyrir allra augum eiga viðskiptavinir kost á að fylgjast vandlega með því hvernig kræsingarnar verða til í fimum höndum bakarans í nýopnuðu bakaríinu og kaffihúsinu í Suðurveri.

6 bakarí opnuð á 38 árum

Bakarameistarinn opnaði fyrsta bakarí sitt í Suðurveri árið 1977. Síðan hafa fleiri bæst við, eitt af öðru og alls er Bakarameistarinn á sex stöðum: Í Mjódd, Glæsibæ, Húsgagnahöllinni, Smáratorgi og Austurveri. Á hverjum stað má nú setjast niður og dreypa á rjúkandi kaffi með kruðeríinu.
Lengstur er afgreiðslutíminn í Suðurveri en þar er opnað alla daga klukkan 6.30 á morgnana, að sunnudögum undanskildum. Þá er opnað klukkan 7 og bregst það ekki að fjöldi fólks leggur leið sína í bakaríið snemma á sunnudagsmorgnum sem aðra daga.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert