Styttir upp í nótt og á morgun

Vatnið streymir um allt fyrir norðan.
Vatnið streymir um allt fyrir norðan. Ljósmynd/Þórir Kristinn Þórisson

Það dregur smám saman úr rigningu og ætti að stytta upp að mestu seint í nótt og í fyrramálið á Norðurlandi og á norðanverðum Vestfjörðum, segir Helga Ívarsdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

mbl.is hefur í dag sagt frá mikilli úrkomu og vatnavöxtum fyrir norðan, þar sem skriður hafa hamlað samgöngum og ár flætt yfir bakka sína.

„Það styttir fyrr upp á Vestfjörðum. Um miðnætti ætti að vera orðin mjög lítil úrkoma þar, en á Siglufirði rignir svona fram á nóttina. En í fyrramálið ætti að vera komin bara smá súld en ekkert úrkomumagn. Þannig að þetta gengur yfir núna í nótt,“ segir Helga um votviðrið.

Hún segir fylgifiska rigningarinnar þó ekki munu hverfa á einni nóttu. „Þótt það hætti að rigna svona mikið þá tekur svolítinn tíma að renna niður,“ segir hún.

Helga segir að veðrið verði ágætt um helgina um allt land.

„Við erum bara komin í rólegheitaveður,“ segir hún. „Það kemur hérna hæðarhryggur yfir landið þannig að helgin lítur bara mjög vel út.“ Helga segir von á smá súld á norðaustan- og austanverðu landinu á morgun en annars verði þurrt og skýjað með köflum. „Það verður bara fínasta veður.“

Helga spáir 7-13 gráðum á landinu um  helgina. Hún segir að á sunnudag gæti hitinn farið í 15 gráður en aðfaranótt sunnudags gæti gert næturfrost inn til landsins.

Á fimmtudag er von á rigningu eða skúrum sunnanlands og vestanlands en Helga segir að Norðurlandið ætti að sleppa í það skiptið.

Frétt mbl.is: Aldrei séð aðra eins úrkomu

Frétt mbl.is: Íbúar reyna að bjarga eignum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert