Sjúkrahótelið verði tilbúið 2017

Stjórn NLSH ohf: Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri, Hafsteinn S. Hafsteinsson, Dagný …
Stjórn NLSH ohf: Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri, Hafsteinn S. Hafsteinsson, Dagný Brynjólfsdóttir og Erling Ásgeirsson, stjórnarformaður. Ljósmynd/ Magnús Heimisson

Gunnar Svavarsson tekur formlega við starfi framkvæmdastjóra Nýs Landspítala hinn 1. júlí næstkomandi. „Ég er í raun og veru búinn að gegna þessu starfi frá 1. janúar,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is. Gunnar hefur komið að verkefninu frá 2009 með einum eða öðrum hætti og gegndi meðal annars hlutverki stjórnarformanns félagsins. „Þannig þetta er ekkert nýtt fyrir mér,“ segir Gunnar.

Fyrsta verk Gunnars í starfi verður að halda áfram í þeim verkum sem unnið hefur verið að á umliðnum mánuðum og árum við uppbyggingu nýs sjúkrahúss, þá fyrst og fremst að halda áfram að byggja upp við Hringbraut eins og stjórnvöld gera ráð fyrir.

Til stendur að sjúkrahótelið sem nú er í byggingu verði tilbúið vorið 2017 og verki við hönnun meðferðakjarnans skal skilað 2018. Þá standa vonir til um að byggingarnar fjórar, sem nú er unnið að, verði allar tilbúnar árið 2023.

Hlutverk framkvæmdastjóra leggst vel í Gunnar en kjör hans koma til með að breytast til batnaðar við ráðninguna. „Ábyrgðin er önnur og verkefnið annað að vera framkvæmdastjóri,“ segir Gunnar. 

Frétt mbl.is: Gunnar stýrir Nýjum Landspítala ohf

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert