Útlendingastofnun nálgast þolmörkin

Útlendingastofnun og innanríkisráðuneytið leita nú leiða til að útvega fleiri húsnæðis- og þjónustuúrræði vegna mikils fjölda fólks sem óskað hefur eftir alþjóðlegri vernd hér á landi á undanförnum mánuðum. Þau úrræði sem Útlendingastofnun og samstarfsaðilar stofnunarinnar hafa boðið uppá eru nálægt því að vera fullnýtt.

Í tilkynningu frá Útlendingastofnun kemur fram að m.a. sé leitað úrræða hjá öðrum sveitarfélögum en Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbæ og Reykjanesbæ sem hafa sinnt þjónustu- og húsnæðismálum við að jafnaði um 180 til 190 umsækjendur um alþjóðlega vernd. Að jafnaði hafa um 170 manns nýtt sér þjónustuna á undanförnum mánuðum.

„Snörp aukning í umsóknum undanfarna daga hefur gert að verkum að nauðsynlegt er að leita frekari úrræða og aðstöðu hvað þetta varðar. Allt kapp er lagt á að tryggja fullnægjandi aðstæður í því húsnæði sem fyrir er og að þjónusta sé viðunandi,“ segir í tilkynningunni.

316 umsækjendur um alþjóðlega vernd á fyrstu sjö mánuðum 2016

Á fyrstu sjö mánuðum ársins sóttu 316 manns um alþjóðlega vernd hér á landi og það sem af er ágústmánuði hafa 45 sótt um, þar af um 20 manns síðastliðna fimm daga. Árið 2016 er því þegar orðið metár hvað varðar fjölda umsókna um vernd en allt árið í fyrra voru umsækjendur 354.

26% umsækjenda á fyrstu sjö mánuðum ársins komu frá Albaníu. Alls telja borgarar ríkja Balkanskagans 42% umsókna. Er þetta hlutfall í takt við tölfræði ársins 2015. 364 málum varðandi alþjóðlega vernd var lokið á fyrstu sjö mánuðum ársins hjá Útlendingastofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert