Englar með vængi taka flugið

Örnólfur Thorlacius hefur verið iðinn við kolann og afkastamikill í …
Örnólfur Thorlacius hefur verið iðinn við kolann og afkastamikill í útgáfu. mbl.is/RAX

Örnólfur Thorlacius, fyrrverandi rektor Menntaskólans við Hamrahlíð, hélt upp á 85 ára afmæli sitt í haust og þá lauk hann við að skrifa bók um sögu flugsins, en bók hans, Flugsaga, kom nýverið út hjá bókaútgáfunni Hólum.

Í bókinni rekur Örnólfur söguna í máli og myndum, byrjar á englum og öðrum boðberum, færir sig síðan í stökkflug og loftbelgi, loftskip og svifflugur, og greinir síðan frá þróun í flugvélasmíði og hinum ýmsu gerðum auk þess sem þotur og þyrlur fá sérstaka athygli. Enn fremur er sérkafli um flugsögu Íslands. „Ég fer í gegnum þessi stig, allt frá fyrirbærum eins og englum með vængi að háþróuðum flugvélum,“ segir hann.

Örnólfur segir að bókin sé eðlilegt framhald af bókinni sem hann skrifaði um kafbáta. „Mér fannst að ég gæti haldið áfram og þá lá nokkuð beint við að ég tæki flugvélarnar næst,“ segir hann. Bætir við að hann hafi lengi haft áhuga á flugvélum. „Eins konar flugdella hefur fylgt mér alla tíð,“ segir hann. Segist hafa lesið mikið um flug og segir að besta bókin um efnið á íslensku hafi verið þýdd úr þýsku og komið út 1934. Hún nái samt ekki lengra og því hafi vantað upp á söguna, meðal annars um þotur og þyrlur. Fyrir tveimur til þremur árum hafi hann byrjað að punkta hjá sér ýmislegt úr flugsögunni og nú sé bókin komin út.

Eftirminnileg flug

Reykjavíkurflugvöllur var sem ævintýraland á uppvaxtarárum Örnólfs. „Á stríðsárunum voru margar flugvélar á vellinum og maður var stöðugt með þær fyrir augunum,“ rifjar hann upp. Orrustuflugvélar hafi verið áberandi og eins nýjar herflugvélar sem komu við frá Bandaríkjunum til þess að taka eldsneyti á leiðinni til Þýskalands.

Fyrsta flugferðin er eftirminnileg. Örnólfur segir að á stríðsárunum hafi hlutlausar vélar verið málaðar rauðar til aðgreiningar frá flugvélum stríðsþjóða. „Eitt sinn bauð afi minn, Kristinn Jónsson, bóndi fyrir norðan, mér og systur minni að vera við sauðburð á býli sínu í Þingeyjarsýslu. Við þekktumst það og fengum frí úr skóla enda var talið að við hefðum meira gagn af því að vera þarna en í skólanum.“ Þau hafi síðan flogið í tvívængja, eins hreyfils, fjögurra sæta vél frá Korpúlfsstöðum að Melgerðismelum. „Næsta flug var eftir að ég fór í nám til Svíþjóðar og settist upp í stóra fjögurra hreyfla flugvél sem flutti mig til Kaupmannahafnar.“

Í bókinni segir Örnólfur frá ýmsum afbrigðum flugs en hann segist ekki hafa hugsað um hvernig hefði verið að búa í flugvélalausum heimi. „Ég hef aldrei hugsað svo langt en það hefði verið talsvert öðruvísi.“

Örnólfur hefur verið mjög afkastamikill, skrifað fjölda kennslubóka, þýtt margar fræðibækur og barnabækur og haft umsjón með útgáfu bóka og bókaflokka auk þess sem hann sá um þáttinn Nýjasta tækni og vísindi í ríkissjónvarpinu um árabil. Hann segist alltaf vera með eitthvað á prjónunum og eiga ýmislegt í smíðum, einkum í líffræði og þá sérstaklega dýrafræði. „Ég basla við ýmislegt, sit ekki við það heldur stunda þetta í hjáverkum,“ segir hann. Spurður hvort bók um skipin sé væntanleg segist hann ekki vita það. „Ég er ekki farinn að hugsa svo langt, en það gæti orðið eitthvað þannig.“

Kápa Flugsögu Örnólfs Thorlacius.
Kápa Flugsögu Örnólfs Thorlacius. RAX,Rax / Ragnar Axelsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert