Eru að ljúka leit við Urriðaholt

Björgunarsveitir voru að ljúka leit í Urriðaholti nú undir kvöld. …
Björgunarsveitir voru að ljúka leit í Urriðaholti nú undir kvöld. Ekki stendur til að halda leit áfram í kvöld nema nýjar vísbendingar berist. mbl.is/Árni Sæberg

Björgunarsveitir Landsbjargar munu ekki halda áfram leit að Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur til spurst frá því aðfaranótt laugardags, í kvöld eða nótt.

„Við erum búin að taka ákvörðun í rólegheitunum um að pakka saman, nema það komi nýjar vísbendingar sem við getum unnið meira eftir,“ sagði Lárus Steindór Björnsson, svæðisstjóri björgunarsveita.

Yfir hundrað manns hafa tekið þátt í leitinni að Birnu í dag. Ítarleg leit fór fram við Hafnarfjarðarhöfn, einum bíl var ekið upp að Keili og síðdegis var aftur hafist handa við að leita í Urriðaholti. Undir kvöldið mátti enn sjá sterka ljósgeisla skima hraunið fyrir aftan Ikea og þá sveimaði dróni yfir svæðinu.

„Menn eru að klára að fara yfir svæðið og munu að því loknu koma hingað upp í bækistöð,“ sagði Lárus. Á milli 30-40 manns leituðu Birnu á svæðinu síðdegis, þyrlu var flogið yfir svæðið og björgunarsveitir notuðu dagsbirtuna til að slæða Urriðakotsvatn.

Lárus segir leit þar með lokið á þessum tveimur stöðum, við Hafnafjarðarhöfn og í Urriðaholti. „Það er búið að leita þar eins vel og við teljum okkur mögulega geta leitað,“ sagði hann.

Ekki liggur fyrir hvort björgunarsveitir muni halda áfram leit er birtir á morgun, en lögregla og björgunarsveitir munu funda í kvöld og verður ákvörðun þá tekin um næstu skref í leitinni að Birnu.

Uppfært: 19:20. Ákveðið var á svæðisfundi björgunarsveita nú um kvöldmatarleytið, að ekki verði hafin frekari leit að Birnu í kvöld eða á morgun nema nýjar vísbendingar berist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert