Ná ekki að þrengja leitarsvæðið

Ekki hefur gengið að fá nægilega skýrt myndefni til þess …
Ekki hefur gengið að fá nægilega skýrt myndefni til þess að þrengja leitina. mbl.is/Eggert

„Við höfum ekkert náð að þrengja leitarsvæðið. Það eru engar myndavélar sem hafa hjálpað til við það,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Hann segir lögreglu velta við hverjum steini þegar kemur að því að þrengja leitarhringinn, sem nú er svo til allt suðvesturhorn landsins. Er þar miðað við kílómetrafjöldann sem rauði Kia Rio-bíllinn, sem talinn er tengjast hvarfi Birnu Brjánsdóttur, ók. Því hafi ökumenn með myndavélabúnað hvarvetna á suðvesturhorninu verið beðnir um að fara yfir myndefni sitt. Það hefur þó ekki borið tilætlaðan árangur.

Þá hefur lögregla farið yfir myndbönd úr fyrirtækjum sem eru nærri þjóðveginum.

„Bensínstöðvar eru að fókusera á sín svæði og eru ekki að hjálpa okkur. Myndavélar þar dekka bara sitt svæði. Í rauninni ætti ríkið að vera ábyrgt fyrir þjóðvegunum hvað þetta varðar. Vegagerðin er með einhverjar myndavélar, en þær eru ætlaðar fyrir allt annað hlutverk. Þær eru ekki gerðar til þess að greina bíla, bíltegundir eða bílnúmer. Þar eru í raun tilviljanakenndar upptökur á fimm eða tíu mínútna fresti,“ segir Ásgeir. 

Hafa fengið tímasettar ábendingar

Hann segir að lögreglan hafi skoðað myndbandsupptökur úr mörgum fyrirtækjum. Af sumum þeirra hafa jafnvel borist tímasettar ábendingar. „Það eru víða myndavélar inni í fyrirtækjum sem við vitum ekki af og höfum biðlað ítrekað eftir myndefni. Við höfum stundum fengið útlínur af einhverjum bílum, en það er alls ekki hægt að greina tegund bílsins, hvað þá bílnúmer. Engu að síður hafa sum fyrirtæki komið með tímasettar ábendingar og við erum afskaplega þakklátir fyrir það,“ segir Ásgeir. 

Uppfært: 13:03 

Ásgeir segir að bíllinn sjáist ekki fara inn Hvalfjarðargöng. Eftir sem áður er ekki útilokað að rauði Kia Rio bíllinn hafi keyrt Hvalfjörð. „Við getum sagt að svæðið þar (norðan megin hvalfjarðar) sé ekki í forgangi hvað leit varðar,“ segir Ásgeir.  

Leitarsvæðið er gríðarstórt.
Leitarsvæðið er gríðarstórt. mbl.is
Kia Rio-bifreiðin.
Kia Rio-bifreiðin.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert