Boðaði vantraust á Bjarna

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert

Forsætisráðherra manar menn upp í vantrauststillögu. Hún kemur,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins og vísaði þar til orða Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra á dögunum þar sem hann hvatti stjórnarandstæðinga til þess að leggja fram vantrausttillögu ef þeir teldu ástæðu til þess. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, boðaði einnig slíka tillögu skömmu eftir að ríkisstjórnin var mynduð.

Björn Leví sagði þrjá ráðherra ríkisstjórnarinnar í vanda þrátt fyrir að ríkisstjórnin hefði ekki setið lengi. Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hefði veitt villandi svör í ræðustól Alþingis, Þorgerður Katrín Gunnardóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefði hótað sjómönnum lögum á verkfall þeirra og Bjarni hefði orðið „uppvís að því að leyna almenning upplýsingum og þegar upp komst um það reyndi hann að ljúga til um að upplýsingarnar hefðu ekki verið tiltækar fyrr en þing var farið heim. Sakaði hann Bjarna um lygi og alvarlegt trúnaðarbrot við þing og þjóð.

„Ráðherra viðurkenndi að hafa ekki athugað hvort efni skýrslunnar varðaði almannahag með tilliti til frumkvæðisskyldu sinnar um birtingu slíkra upplýsinga. Forsætisráðherra manar menn upp í vantrauststillögu. Hún kemur. Fyrst þarf forsætisráðherra að svara þessum spurningum í ræðustól Alþingis: Varða upplýsingarnar í skýrslunni sem hann faldi almannahag og braut ráðherra siðareglur? Ellegar er það vantraustsvert í sjálfu sér að ráðherra víki sér ítrekað undan því að svara spurningum sem til hans er beint á Alþingi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert