Verður yngsti þingmaður sögunnar

Bjarni Halldór við undirritun drengskapareiðs að stjórnarskránni á Alþingi í …
Bjarni Halldór við undirritun drengskapareiðs að stjórnarskránni á Alþingi í dag. Skjáskot/Alþingi

Þrír varamenn taka í dag sæti á Alþingi fyrir Viðreisn. Þetta er í fyrsta sinn sem Viðreisn kallar inn varamenn á þing. Einn varamannanna er Bjarni Halldór Janusson en hann er yngsti þingmaður sögunnar til að taka sæti á Alþingi.

Bjarni, sem tekur sæti fyrir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, er fæddur 4. desember árið 1995.

Hann er því 21 árs, fjögurra mánaða og 19 daga gamall. Jóhanna María Sigmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, átti áður metið. Hún er fædd árið 1991 og var 21 árs og 303 daga gömul þegar hún var kjörin á þing árið 2013.

Hann er stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja og stundar nám í stjórnmálafræði og heimspeki við Háskóla Íslands, að því er fram kemur í tilkynningu.

„Bjarni situr í Stúdentaráði Háskóla Íslands en var áður framkvæmdastjóri nemendafélags NFS og  MORFÍs. Hann er einn af stofnendum Viðreisnar og sat í fyrstu stjórn flokksins. Hann er jafnframt einn af stofnendum ungliðahreyfingar flokksins og er fyrsti formaður hennar,“ segir í tilkynningunni.

Alþingi kemur saman í dag kl. 15.
Alþingi kemur saman í dag kl. 15. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ómar Ásbjörn Óskarsson tekur þá sæti fyrir Jón Steindór Valdimarsson og Jóhannes Albert Kristbjörnsson tekur sæti fyrir Jónu Sólveigu Elínardóttur úr Suðurkjördæmi.

„Ómar Ásbjörn Óskarsson skipaði 6. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi. Hann er fæddur árið 1984 og er uppalinn Hafnfirðingur. Ómar lauk B.A.-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 2009 og M.Sc.-prófi í alþjóðaviðskiptum frá Háskólanum í Reykjavík 2009. Ómar lauk einnig M.Sc.-prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 2013.

Ómar var framkvæmdastjóri Framadaga 2007 og eftir nám hefur hann starfað sem skrifstofustjóri hjá Járnsmíði Sf. Ómar sat í Fjölskylduráði Hafnarfjarðar frá 2014-2016 og í Umhverfis- og framkvæmdaráði frá 2016-2017.  Í dag rekur hann innflutningsfyrirtæki með byggingavörur.

Jóhannes Albert Kristbjörnsson skipaði 2. sætið á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi og er því fyrsti varamaður. Hann er fæddur árið 1965. Jóhannes var lögreglumaður og útskrifaðist frá Lögregluskóla ríkisins árið 1993; hann útskrifaðist síðar með meistarapróf í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 2013. Hann stofnaði Lögmannsstofu Reykjaness árið 2013 þar sem hann starfar nú.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert