„Flugdrekaskíða“ Suður-Grænland

Skúli vonast eftir góðum aðstæðum á Grænlandi.
Skúli vonast eftir góðum aðstæðum á Grænlandi. Ljósmynd/Hjörtur Eiríksson

Fimm íslenskir fjallagarpar halda til Grænlands á fimmtudag þar sem þeirra bíður um 1.200 kílómetra ferðalag yfir fjöll og firnindi í snjó og kulda. Ferðalagið hefst í Scoresby-sundi og lýkur í Isortoq.

Mennirnir fimm, sem allir eru reyndir göngumenn, ætla þó ekki að ganga leiðina á tveimur jafnfljótum. Ætlunin er að fara meirihluta kílómetranna 1.200 á „flugdrekaskíðum“.

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands, er einn göngugarpanna fimm. „Þetta gengur í grundvallaratriðum út á það að vera með segl eða vængi og láta vindinn draga sig áfram,“ segir Skúli í samtali við mbl.is þegar hann er beðinn um að útskýra „flugdrekaskíðin“ en með Skúla í för verða Hallgrímur Magnússon, Einar Kristján Stefánsson, Leifur Örn Svavarsson og Tómas Júlíusson.

Skúli segir ferðina svokallaða blandaða ferð. „Það verður líka farið á tinda sem hafa ekki verið klifnir áður, sem eru í línunni. Það er ekki verið að reyna að setja hraðamet til suðurhluta Grænlands,“ segir Skúli en gert er ráð fyrir því að ferðin taki upp undir sex vikur.

Hversu erfitt verður þetta?

Hann gerir ráð fyrir því að ferðin verði erfið. „Hversu erfitt og hvernig erfitt er síðan önnur spurning. Ef við erum heppnir með vind þá getum við siglt alla leiðina. Ef við lendum í algjöru vindleysi, ef við þurfum að labba með sleðana, þá erum við í verri málum. Spurningin með vind er stærsta spurningin,“ segir Skúli og bætir við að það spili einnig inn í hvort snjórinn verði þungur og skíðafæri erfitt.

Áætluð leið fimmmenninganna frá Scoresby-sundi til Isortoq.
Áætluð leið fimmmenninganna frá Scoresby-sundi til Isortoq.

 

„Draumaaðstæður eru að fá þarna tíu metra á sekúndu, norðanátt og þokkalega sléttan snjó. Við þær aðstæður er í sjálfu sér ekki stórmál að komast 100 km á dag á þessum búnaði,“ segir Skúli en heimildarmynd verður gerð um ferðalagið. 

„Við ætlum að reyna að gera mynd um þetta sem Saga Film ætlar að framleiða. Við erum ekki með myndatökumann þannig að við þurfum að taka efni sjálfir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert