Fróðleikur á Fallbyssuhæð

Friðþór Eydal í gær í Öskjuhlíðinni, hvaðan átti að skjóta …
Friðþór Eydal í gær í Öskjuhlíðinni, hvaðan átti að skjóta á Þjóðverja gerðu þeir árás á Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Öskjuhlíðin var mikilvægur staður þegar kom að því að verja borgina fyrir Þjóðverjum. Þaðan var hægt að beina fallbyssum til dæmis að höfninni, enda var líklegast að óvinaher færi þangað inn ef til innrásar kæmi,“ segir Friðþór Eydal. Hann er höfundur texta á upplýsingaskiltum sem á dögunum voru sett upp á sjö stöðum á Öskjuhlíðarsvæðinu, en við hvert þeirra eru stríðsminjar sem vert er að skoða og halda til haga sögunni um. Uppsetning skiltanna var samstarfsverkefni Isavia og Reykjavíkurborgar.

Virkisborg og veggur

Á tveimur stöðum í Öskjuhlíð eru sérstaklega eftirtektarverðar stríðsminjar. Skammt fyrir neðan Perluna er stór steinsteypt virkisborg, að mestu niðurgrafin. Byrgi þetta er átta metrar á hvern kant og inn í það er gengt um yfirbyggðar tröppur sem eru hvorar á sínum gafli. Þarna ætlaði herlið að hafast við ef kæmi til árásar á borgina og flugvöllinn, en Bretar hófust handa um gerð hans snemma eftir að þeir hernámu Ísland 10. maí 1940. Meðal Bretanna var raunar jafnan talað um Öskjuhlíð sem Howitzer Hill, sem í beinni þýðingu er Fallbyssuhæð.

Stærsta mannvirkið frá stríðstímum sem enn stendur í Öskjuhlíðinni er nokkurra tuga metra langur veggur, tveir til þrír metrar á hæð, úr hlöðnu grjóti og steypt er milli steina. Veggur þessi var reistur til þess að koma í veg fyrir flóð brennandi eldsneytis niður hlíðina ef loftárás yrði gerð á eldsneytistanka sem þar stóðu. Bæði við varnarstjórnstöðina gömlu og varnarvegginn, svo og í Nauthólsvík, eru skilti með upplýsingum og texta frá Friðþóri, sem þekkir sögu Íslands í seinni heimsstyrjöldinni flestum betur.

Verður fróðleikur um þetta brátt gerður aðgengilegur á vef Isavia og í riti um 70 ára sögu flugvalla og flugleiðsöguþjónustu á Íslandi, sem verður gefið út síðar á þessu ári.

Skotbyrgi við Veðurstofuna

Þótt engar séu merkingarnar þar enn er svo líka að finna stríðsminjar við Bústaðaveginn, eina fjölförnustu umferðaræðina í borginni. Vegfarendur veita þeim sennilega ekki mikla athygli, en þetta eru tvö steypt skotbyrgi skammt fyrir vestan Veðurstofuna. Eru þau að hálfu niðurgrafin en undir steyptu skyggni er rauf, þar sem byssumenn bardaga höfðu útsýni út yfir Fossvog og Skerjafjörð.

„Úr þessum byrgjum átti að verja Hafnarfjarðarveginn, sem herfræðilega var mikilvæg leið, til dæmis ef gerð yrði innrás um Hafnarfjörð. Einnig var komið upp byssuhreiðrum til dæmis í Grafarholti, Breiðholti, Vatnsendahæð, Hvaleyrarholti í Hafnarfirði og Álftanesi, þar sem var heilmikil varðstöð með fallbyssum sem áttu að verja sjóleiðina inn til Reykjavíkur. Standa mannvirki á síðastnefnda staðnum að nokkru enn þá. Einnig eru minjar á Valhúsahæð og í Engey en í flestum tilvikum hafa þessar minjar og mannvirki verið fjarlægð eða eru hulin gróðri,“ nefnir Friðþór, sem telur þarft að halda sögu stríðsminja til haga. Þær sé víða að finna og sumt megi auðveldlega varðveita fyrir komandi kynslóðir. Mikilvægt sé sömuleiðis að setja fram réttar upplýsingar fremur en það sem betur kunni að hljóma.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert