Margt í úrskurði sem heldur ekki vatni

Hveravallafélagið vill reisa 1.700 hótelbyggingu á svæðinu.
Hveravallafélagið vill reisa 1.700 hótelbyggingu á svæðinu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er mjög margt í úrskurðinum sem heldur ekki vatni. Atriði sem búið er að svara og fleira. Þeir hafa ekkert tekið tillit til þess. Þeir hafa sinnt mjög takmarkaðri rannsóknarvinnu. Þeir virðast hafa tekið upp athugasemdir sem ýmsir aðilar sendu inn, sem hafa hreinlega ekki kynnt sér málið.“

Þetta segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Hveravallafélagsins, sem hefur í hyggju að reisa rúmlega 1.700 fermetra hótelbyggingu á Hveravöllum, um ákvörðun Skipulagsstofnunar að endurskoða þurfi í heild sinni matsskýrslu vegna uppbyggingar ferðaþjónustu á Hveravöllum, samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Þórir segir niðurstöðuna vissulega koma á óvart. „Hluti af niðurstöðunni kemur reyndar ekki á óvart, en heildarniðurstaðan gerir það. Að krafan sé sú að fara þurfi í fullt mat á öllu svæðinu, sérstaklega þar sem er vísað til breyttra laga og reglugerðar frá því matið var gert. Það er eitthvað sem þeir hefðu getað sagt okkur fyrir þremur, fjórum árum síðan og sparað okkur mikla vinnu og mikinn kostnað.“

Í mats­skýrslu sem var gerð fyr­ir svæðið árið 1997 var upp­bygg­ing 640 fer­metra ferðamannamiðstöðvar skoðuð. Átti hún að vera inn­an friðlýsta svæðis­ins á Hvera­völl­um, en að mest í hvarfi frá aðal­hvera­svæðinu.

Enginn heimsendir

„Verkefnið hefur dregist um þrjú ár út af óþarfa flækjustigi og við teljum okkur hafa verið teymdir áfram að óþörfu. Þetta er kannski vandamálið í hnotskurn varðandi uppbyggingu ferðamannastaða á Íslandi. Hægri höndin veit ekki hvað sú vinstri er að gera. Menn eru teymdir áfram í staðinn fyrir að reglurnar séu alveg skýrar. Þá gætu menn vaðið strax í hlutina og klárað þá.“

Teiknuð mynd af fyrirhugaðri byggingu.
Teiknuð mynd af fyrirhugaðri byggingu.

Hveravallafélagið er þó ekki búið að taka afstöðu í málinu, hvort haldið verður áfram með verkefnið eða rekstri ferðaþjónustunnar haldið áfram í óbreyttri mynd. Að sögn Þóris mun stjórn félagsins taka þá ákvörðun í júlímánuði, en kærufrestur vegna ákvörðunarinnar til 31. júlí.

„Þetta setur okkar áform í ákveðið uppnám en er þó enginn heimsendir. Við getum alveg rekið þarna ferðaþjónustu áfram án þess að gera neitt. Ef við látum gott liggja þá munum við væntanlega óska eftir því að Umhverfisstofnun taki yfir gæslu og umsjón á svæðinu. Við rekum þá bara okkar ferðaþjónustu og þeir sjá um svæðið að öðru leyti.“ Þórir segir Umhverfisstofnun aldrei hafa beðið félagið um að hafa umsjón með svæðinu, en það sé engu að síður auglýst á heimasíðu stofnunarinnar. „Það eru engir samningar um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert