Vorum engir vinir segir von Trier

Lars Von Trier og Björk Guðmundsdóttir við frumsýningu Dancer in …
Lars Von Trier og Björk Guðmundsdóttir við frumsýningu Dancer in the Dark í Cannes árið 2000. AFP
Danski kvikmyndaleikstjórinn Lars von Trier hafnaði í gær ásökunum Bjarkar Guðmundsdóttur um að hann hefði áreitt hana kynferðislega við gerð myndarinnar Dancer in the Dark.

„Þetta er ekki rétt, en við vorum svo sannarlega engir vinir. Það er staðreynd,“ segir von Trier í viðtali við Jyllands-Posten. Mjög hefur verið fjallað um facebookfærslu Bjarkar um helgina og hafa fjölmiðlar um allan heim birt fréttir af henni.

Í færslunni segir Björk að ásakanir á hendur bandaríska kvikmyndaframleiðanum Harvey Weinstein séu tilefni þess að hún ákvað að segja sína sögu, því hún hafi áttað sig á að þetta þyki sjálfsagður hlutur og viðtekin venja meðal kvikmyndaframleiðenda. Að áreita leikkonur. 

Björk hefur ekki leikið í fleiri kvikmyndum en Dancer in the Dark en fyrir leik sinn hlaut hún verðlaunin í Cannes árið 2000. Myndin fékk einnig Gullpálmann það sama ár.

Í gær sagði framleiðandi myndarinnar, Peter Aalbæk Jensen, að hann og von Trier væru fórnarlömb Bjarkar. Hann sagði að hún hefði stýrt öllu á tökustað og hann hefði drukkið flösku af viskíi á dag þar sem hann óttaðist að ekkert yrði af myndinni vegna Bjarkar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem von Trier hefur verið miðpunktur deilna. Hann var rekinn af kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2011 fyrir að segja á blaðamannafundi að hann fyndi til samkenndar með Adolf Hitler. Hann baðst síðar afsökunar á ummælum sínum. 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert