Frítt að pissa í Hörpu

Ferðamenn leita gjarnan á náðir Hörpu þegar náttúran kallar.
Ferðamenn leita gjarnan á náðir Hörpu þegar náttúran kallar. Eggert Jóhannesson

Gjaldtöku á salernunum í Hörpu hefur verið hætt. Þetta staðfestir Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, í samtali við mbl.is. Aðspurð segir Svanhildur alltaf hafa legið fyrir að gjaldtakan væri tímabundin tilraun.

Byrjað var að rukka fyrir klósettferðir 19. júní síðastliðinn og þurfti þá að reiða fram 300 krónur til að bregða sér á salernið. Lagðist það misvel í menn. Vörður gætti salernanna og passaði að enginn kæmist inn nema að greiða, fyrir utan þá sem sóttu viðburði í húsinu.

Ekki fengust upplýsingar um hversu margir hefðu greitt fyrir notkunina meðan á gjaldtöku stóð eða hvort hún hefði staðið undir launakostnaði varðarins.

Í samtali við Vísi í sumar sagði Diljá Ámundadóttir, upplýsingafulltrúi Hörpu, að loks hefði Harpa sama háttinn á og aðrar menningarstofnanir í heiminum og rukkaði fyrir aðgang að salerni. „Það er kannski erfitt að halda úti fríu almenningsklósetti í húsi sem hefur fengið arkitektaverðlaun.“

En nú er það sem sagt raunin. Ekki náðist í Diljá við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert