Mjög illa farinn í andliti eftir árás

mbl.is/Sigurður Bogi

Maðurinn sem varð fyrir líkamsárás á heimili sínu í Melgerði skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi er mjög illa farinn í andliti eftir barsmíðar. Meðan annars brotnuðu í honum tennur.

Þrír menn á fertugsaldri, sem hafa allir komið áður við sögu hjá lögreglunni, komu í Melgerðið með leigubíl. Þeir neituðu að borga fyrir farið og veittust að leigubílstjóranum.

Að sögn lögreglunnar í Kópavogi fóru þeir næst inn í einbýlishús þar sem maðurinn býr ásamt konu sinni og þremur öðrum fjölskyldumeðlimum. Ekki kemur fram hvort dyrnar hafi verið ólæstar.

Maðurinn var sá eini sem var vakandi í fjölskyldunni. Hann reyndi að vísa mönnunum þremur út úr húsinu og kom þá til átaka, sem enduðu á tröppunum fyrir utan húsið. Ekkert kemur fram um að mennirnir hafi notað barefli. 

Mennirnir höfðu á brott með sér úr húsinu fartölvu og yfirhafnir. Þeir voru handteknir skammt frá en lögreglan hafði þegar verið kölluð á staðinn vegna atviksins með leigubílinn skömmu áður.

Að sögn lögreglunnar virðist sem árásarmennirnir þrír tengist íbúum einbýlishússins ekki neitt.

Menn­irn­ir voru vistaðir í fanga­geymslu lög­reglu. Þeir eru grunaðir um lík­ams­árás, hús­brot og þjófnað.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert