Býst við magnaðri heilun

Halldóra Geirharðsdóttir er ein af skipuleggjendum #metoo viðburðarins sem fram …
Halldóra Geirharðsdóttir er ein af skipuleggjendum #metoo viðburðarins sem fram fer í Borgarleikhúsinu í dag. Þar mun fjölbreyttur hópur íslenskra kvenna koma saman og lesa frásagnir sem litið hafa dagsins ljós í #metoo baráttunni hér á landi. mbl.iS/Árni Sæberg

„Það er eitthvað magnað við að heyra sögur upphátt, vera á staðnum og eiga samveru um þetta. Við trúum á einhverja mögnun eða einhvers konar heilun við það,“ segir Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona og ein af skipuleggjendum #metoo viðburðarins í Borgarleikhúsinu í dag.

Klukkan fjögur í dag, á alþjóðadegi mannréttinda, mun fjölbreyttur hópur íslenskra kvenna koma saman á Nýja sviði Borgarleikhússins og lesa frásagnir sem litið hafa dagsins ljós í #metoo baráttunni hér á landi. Samhliða því verða svipaðir viðburðir í Samkomuhúsinu á Akureyri og í Herðubreið á Seyðisfirði.

Frétt mbl.is: Konur lesa upp #metoo-sögur í dag

„Yfirleitt hefur verið sussað á okkur“

Halldóra segir það einnig skipta máli að margar konur komi saman og sameinist um málefnið. „Þetta eru allt sögur sem við höfum borið hver í sínu hljóði. Við höfum aldrei almennilega talað saman, yfirleitt hefur verið sussað á okkur og í gegnum tíðina er búið að segja svo mikið við okkur: „Varstu ekki bara svona…“ eða „Var þetta ekki bara út af því að…“ Það er búið að setja svo mörg formerki fyrir framan allt sem við segjum frá og þetta er eiginlega í fyrsta skipti sem við fáum að segja sögurnar án þess að svara fyrir þær,“ segir Halldóra og á þá við lokaða hópa á Facebook þar sem konur úr hinum ýmsu starfsgreinum hafa deilt sínum sögum.

„Við segjum bara hver við aðra: Við trúum þér, gangi þér vel. Og það skiptir öllu máli að þolanda sé trúað. Það er fyrsta skrefið í átt að því að ná einhvers konar heilun eða frelsistilfinningu fyrir þann sem verður fyrir ofbeldinu eða áreitninni.“

Mikilvægt að viðurkenna vandamálið

Halldóra segir að tilgangur viðburðarins í dag sé meðal annars að vandamálið verði viðurkennt. „Þetta er rosalega mikið hver fyrir sig að átta sig á því hvernig hann hefur tekið þátt í að viðhalda vandamálinu. Það þýðir ekki að benda. Þetta er bara tími þar sem allir þurfa að líta í eigin barm,“ segir hún, hvort sem um er að ræða geranda, viðhlæjanda eða þá sem hafa viðhaldið þögguninni, meðvitað eða ómeðvitað.

RÚV mun streyma beint frá öllum viðburðinum. Blaðamaður mbl.is verður í Borgarleikhúsinu og mun flytja fréttir af frásögnunum kvennanna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert