Eftirskjálftar mælast í Skjaldbreið

Skjaldbreiður.
Skjaldbreiður. mbl.is/RAX

Sex jarðskjálftar hafa mælst í fjallinu Skjaldbreið við Langjökul í dag og var sá stærsti 1,8 stig. Hann mældist snemma í morgun. Hugsanlega eru þetta eftirskjálftar eftir skjálftana sem urðu þar um helgina.

Að sögn Einars Hjörleifssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, er þetta hugsanlega eftirskjálftavirkni eftir stóru skjálftana sem urðu þar um helgina. Sá stærsti mældist 3,8 stig.

Óvenjulegt að skjálftar mælist

Alls mældust um 100 skjálftar í Skjaldbreið um helgina. Fjallið er á vesturgosbeltinu og ekki er óalgengt að jarðskjálftahrinur verði þar, að sögn Einars, sem bætir þó við að frekar óvenjulegt sé að jarðskjálftar mælist í Skjaldbreið.

Síðast mældist þar stór skjálfti árið 1992 á svipuðum slóðum og núna. Frá 1992 hafa mælst skjálftar um og yfir 3 stig en þeir voru norðar.

Svo virðist sem skjálftarnir stafi af flekahreyfingum, eða nánar tiltekið hreyfingu hreppaflekans frá norðurameríska flekanum. Ekki er talið að um kvikuinnskot sé að ræða.

Veðurstofa Íslands.
Veðurstofa Íslands. mbl.is/Eggert

GPS-stöð lagfærð við Skjaldbreið

Spurður út í vöktun Veðurstofu Íslands á svæðinu í kringum Skjaldbreið þá fer hún fram allan sólarhringinn, að sögn Einars. Fjölmargir jarðskjálftamælar eru á Suðurlandsbrotabeltinu og einnig eru fjórir slíkir umhverfis svæðið. Einn er við Þingvallavatn, annar við Bifröst, sá þriðji við austanverðan Langjökul og sá fjórði við Búrfell. Mælarnir eru hluti af jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar sem þekur allt landið.

Ekki verður gripið til neinna aðgerða vegna skjálftanna í Skjaldbreið nema hvað að ein GPS-stöð verður lagfærð sem hafði bilað á svæðinu. Sú viðgerð er einnig hluti af almennu viðhaldi.

Myndaðist fyrir 9.000 árum

Vesturgosbeltið þar sem Skjaldbreiður er liggur frá Henglinum norður í gegnum Þingvelli og upp í Langjökul. Þar er mun minni gliðnun en á austurgosbeltinu, sem þýðir að minni spenna byggist upp sem þarf að losna úr læðingi í skjálftum.

Eldvirkt svæði Skjaldbreiðs er 1.060 metra há dyngja. Fjallið myndaðist fyrir um 9.000 árum í löngu gosi, því sama og myndaði umgjörð Þingvallavatns.

Á Langjökulssvæðinu hafa að jafnaði orðið eldgos á um 1.000 ára fresti síðustu 5.500 árin, það síðasta varð reyndar fyrir um 3.600 árum.

Skjaldbreiður mælist um 15 rúmkílómetrar ofanjarðar, þ.e. ofan við jafnsléttu umhverfisins, samkvæmt vísindavefnum. Þyngdarmælingar Magnúsar Tuma Guðmundssonar jarðeðlisfræðings benda aftur á móti til þess að rúmmál fjallsins sé í rauninni um 35 rúmkílómetrar, en neðri hlutinn sé hulinn hraunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert