Falast eftir kortaupplýsingum með greiðsluloforði

Þrjótarnir biðja fólk um kortaupplýsingar með loforði um endurgreiðslu.
Þrjótarnir biðja fólk um kortaupplýsingar með loforði um endurgreiðslu.

Svindlarar eru sagðir nota nú nafn Símans til að falast eftir greiðslukortaupplýsingum fólks með ósannindum um endurgreiðslu. Í fréttatilkynningu sem Síminn hefur sent frá sér um málið eru þeir viðskiptavinir sem fengið hafa póstinn beðnir um  að hafa varann á. Þá er einnig bent á að Síminn biðji aldrei um svo viðkvæmar persónuupplýsingar með þessum hætti

„Síminn hefur gripið til víðtækra varna til að vernda viðskiptavini fyrir þessum vefveiðum. Lokað hefur verið á lendingarsíður í tölvupósti svindlaranna hjá viðskiptavinum Símans. Hafi viðskiptavinir annarra fjarskiptafélaga fengið póstinn bendum við þeim á að vara sig.

Póstarnir nú eru áþekkir þeim sem gengu fyrr á árinu í nafni Símans og harmar félagið að nafn þess sé misnotað með þessum hætti,“ segir í tilkynningunni.

Síminn bendir enn og aftur á að það sé skýr regla fyrirtækisins að biðja ekki undir neinum kringumstæðum um greiðslukortanúmer í tölvupósti.

„Síminn hefur upplýst netöryggissveit yfirvalda, Cert-Ís, um póstana. Öryggisteymi Símans fylgist með framvindunni í náinni samvinnu við hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert