Gífurlegt tjón á húsnæði Kvikkfix

Móttaka Kvikkfix var á floti í gær.
Móttaka Kvikkfix var á floti í gær. Ljósmynd/Aðsend

Starfsemi bílaverkstæðis Kvikkfix liggur niðri og gífurlegt tjón varð á húsnæði fyrirtækisins. „Það flæddi í öll 3 húsin okkar, um öll herbergi og allt saman,“ segir Hinrik Morthens, einn þriggja eigenda Kvikkfix, í samtali við mbl.is.

Tjónið varð þegar réttindalaus ökumaður missti stjórn á bifreið sinni og ók á brunahana. Hinrik segir aðkomuna hafa verið skelfilega en mikill leir og sandur fylgdi flóðinu. „Þetta er svona eins og Sahara, það er brúnn leir yfir öllu,“ segir Hinrik um móttöku bílaverkstæðisins.

Gífurlegt tjón varð af slysinu að sögn Hinriks, eiganda Kvikkfix.
Gífurlegt tjón varð af slysinu að sögn Hinriks, eiganda Kvikkfix. Ljósmynd/Aðsend

Ættu að fá tjónið bætt

Lögmaður Kvikkfix segir að það eigi ekki að hafa áhrif á fyrirtækið þótt ökumaðurinn sem olli tjóninu sé réttindalaus. „Mér skilst það sé endurkröfuréttur hjá þeim en það eigi að borga okkur tjónið samkvæmt lögum,“ segir Hinrik.

Samkvæmt tryggingum bifreiðar sem ökumaður var á eigi að bæta það tjón sem verður. „Auðvitað er smá beygur í manni þegar ég frétti það að bifreiðin og við erum tryggð hjá sama tryggingafyrirtæki,“ segir Hinrik.

Eins og gefur að skilja getur Kvikkfix ekki haldið úti eðlilegri starfsemi sem stendur og segir Hinrik vont að þurfa að vísa fólki frá. „Við höfum lagt mikið kapp á að viðskiptavinum líði vel í góðri móttöku og geti haft það huggulegt en þetta var eins og stórfljót hérna í gær.“

Planið fyrir framan húsið varð að eins konar tjörn.
Planið fyrir framan húsið varð að eins konar tjörn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert