WOW ekki bótaskylt vegna fugls

Flugfélaginu er ekki gert að greiða farþega bætur.
Flugfélaginu er ekki gert að greiða farþega bætur.

Samgöngustofa hefur hafnað bótakröfu farþega sem átti bókað flug með WOW air frá Barcelona til Keflavíkur í ágúst á síðasta ári. Fluginu var aflýst vegna vélarbilunar þar sem fugl fór inn í hreyfil flugvélarinnar í flugtaki.

Samgöngustofu barst kvörtun 19. janúar þar sem kemur fram að áætlaður komutími í Keflavík hafi verið rúmlega hálftvö eftir miðnætti 23. ágúst. Í flugtaki fór fugl inn í hreyfil vélarinnar og olli alvarlegum skemmdum en fljúga þurfti vélinni í klukkustund áður en henni var lent aftur í Barcelona.

Farþegum var komið fyrir á hóteli eftir lendingu og komu til Keflavíkur tæpum 29 klukkustundum eftir áætlaðan komutíma. Í svari WOW vegna málsins kemur fram að félagið hafi lent í vandræðum með að útvega aðra vél.

Samgöngustofa segir að flugfélagið hafi lagt sig fram við að takmarka afleiðingar af hinum óviðráðanlegu aðstæðum eftir bestu getu. Samgöngustofa telur atvikið sem kom upp, að fugl fari í hreyfil flugvélar, tilviljanakennt og óviðráðanlegt af hálfu flugfélagsins.

Hins vegar virðist kvartandi ekki hafa fengið skriflegar upplýsingar um rétt sinn og mælist Samgöngustofa til þess að WOW fari eftir ákvæðum laga um réttindi farþega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert