Heillaður af löngu látnum greifa

Jón Eldon Logason arinsmiður við Rumford-arininn á heimili sínu og …
Jón Eldon Logason arinsmiður við Rumford-arininn á heimili sínu og með greifann sjálfan í höndunum. Árni Sæberg

Nafnið Rumford greifi er ef til vill ekki á hvers manns vitorði hér í fásinninu. Það er eigi að síður svo að sitthvað sem þessi bresk/bandaríski vísindamaður fann upp fyrir meira en tveimur öldum kemur reglulega við sögu í okkar lífi öllum þessum árum síðar. Það er því ekki að ósekju að Jón Eldon Logason arinmúrari hefur á seinni árum gert það að köllun sinni að kynna greifa þennan fyrir fólki. 

Það var árið 1990 að Rumford greifi kom inn í líf Jóns Eldons og hafa þeir félagar fylgst að síðan. Nú þegar Jón er hættur að hlaða arna, sinnir aðeins ráðgjöf, lítur hann á það sem sitt helsta hlutverk að koma greifa þessum á framfæri við íslensku þjóðina. Ævistarf hans hafi verið svo margslungið og merkilegt. Það sem gerir vináttu þessara tveggja manna óvenjulega er sú staðreynd að Rumford greifi var uppi um aldamótin 1800. Það breytir ekki því að áhrifa hans gætir víða ennþá.

Svo notuð séu orð Jóns Eldons sjálfs þá fæddist hann inn í starf arinmúrarans; tók við af föður sínum, Loga Eldon, sem hlóð sinn fyrsta arin árið 1929. Fyrir kurteisissakir sleppi ég því að spyrja Jón Eldon um það hvort nöfn þeirra feðga hafi gert útslagið þegar þeir ákváðu að snúa sér að aringerð enda hefur hann örugglega verið þráspurður um það gegnum tíðina.

„Pabbi átti eðli málsins samkvæmt mikið af arinbókum og nafnið Rumford greifi bar oft fyrir augu,“ segir Jón Eldon og skildi engan undra, það var einmitt Rumford greifi sem fann upp arininn. Það var þó ekki fyrr en árið 1990 að Jón Eldon fór að kynna sér ævi og störf greifans að nokkru gagni. „Þá var ég orðinn áhugasamur um staðlaðan arin sem virkar alltaf; en ekki að hlaða bara eftir einhverjum teikningum arkitekta sem hugsuðu ef til vill meira um útlitið en hagkvæmnina. Þá blasti við að leita í smiðju til Rumfords enda er hann þekktur fyrir að hafa hannað sparneytnasta arininn og mesta hitagjafann. Það er engin tilviljun að hugmyndir Rumfords gengu í endurnýjun lífdaga í olíukreppunni upp úr 1970,“ segir Jón Eldon.

Rumford greifi fæddist í Bandaríkjunum 1763 en leiðin lá til München árið 1785, þar sem Rumford vann hylli Karls Theódórs, kjörfursta af Bæjaralandi, sem með tímanum gerði hann að greifa af hinu helga rómverska heimsveldi og þaðan kemur nafnið sem fylgdi honum æ síðan, Rumford greifi, eftir bænum í Massachusetts sem hann gifti sig í.

Rumford sat ekki auðum höndum í München, hélt meðal annars áfram að gera nákvæmar rannsóknir á eldi og eldstæðum. „Það fór ekkert framhjá honum,“ segir Jón Eldon. „Það var til dæmis Rumford sem hugkvæmdist að hafa minnstu pottana næst eldinum og stærstu pottana fjærst, auk þess sem hann var fyrstur til að aðskilja eld og mat. Fram að því hafði eldurinn bara leikið um bráðina,“ segir Jón Eldon og bætir við að hann hafi líka hannað brauðgerðarofn sem ennþá standi fyrir sínu. Þá var það var Rumford sem fyrstur manna mun hafa opnað eldhúsið á heimili sínu og látið það renna saman við borðstofuna; eins og er svo vinsælt í dag. Öllum þessum árum síðar.

Nánar er hermt af Rumford greifa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert