Það var hvergi betra að vera

Þróttarar, sem þá voru í 1. deild, fagna sigri á …
Þróttarar, sem þá voru í 1. deild, fagna sigri á úrvalsdeildarliði Vals í bikarkeppninni sumarið 2012. mbl.is/Eva Bjork

„Það sem var best við stúkuna var að kvöldsólin skein beint í andlitið á manni,“ segir skemmtikrafturinn Sólmundur Hólm í samtali við mbl.is en í vikunni var hafist handa við að rífa áhorfendastúku og steypt áhorf­enda­stæði við Val­bjarn­ar­völl­inn í Laug­ar­dal.

Maður kom með sólgleraugu og naut leiksins en í góðu veðri var hvergi betra að vera en á Valbjarnarvelli,“ segir Sólmundur, eða Sóli eins og hann er oftast kallaður. Hann er uppalinn Þróttari og hlaut sitt fótboltalega uppeldi á Valbjarnarvellinum.

Ekki góður á vellinum en ágætur utan hans

„Það skilaði nú ekki merkilegum knattspyrnumanni en þokkalega merkilegum stuðningsmanni,“ segir Sóli og hlær.

Verið er að rífa stúkuna og steypt áhorf­enda­stæði við Val­bjarn­ar­völl­inn …
Verið er að rífa stúkuna og steypt áhorf­enda­stæði við Val­bjarn­ar­völl­inn í Laug­ar­dal. mbl.is/Árni Sæberg

Hann á margar góðar minningar frá vellinum en Sigurður heitinn Hallvarðsson kemur fljótt upp í hugann á Sóla þegar unglingsárin í Laugardalnum eru rifjuð upp. „Þegar Sigurður Hallvarðsson heitinn var á síðustu metrunum á ferlinum og kom inn á í leikjum fannst mér eins og hann  skoraði alltaf sigurmörk. Minningin er allavega sú að Sigurður kom inn á og skoraði alltaf.“

Sóli hefur ekki tölu á öllum leikjunum sem hann fór á á Valbjarnarvellinum og segir þá auðvitað misminnisstæða. „Leikurinn á móti Fram í upphafi Íslandsmótsins 1996 er einhverra hluta vegna ógleymanlegur. Hann fór 3:3 en bæði lið skoruðu mark á síðustu fimm mínútunum. Þetta var svona týpískur hörkuleikur grannliða,“ segir Sóli sem sjálfur var vallarþulur um tíma.

Oftar gengið illa

Spurður um slæmar minningar tengdar vellinum segir Sóli þær nokkrar, enda hafi gengi Þróttara á knattspyrnuvellinum ekki verið upp á marga fiska síðan hann byrjaði að fylgjast með boltanum.

„Ég man eftir því að fyrsti leikurinn þegar við vorum nýliðar í efstu deild árið 2008 var ógeðslega pirrandi. Við töpuðum þá 3:0 fyrir Fjölni. Þetta er ekkert endilega versta minningin en ég man hvað maður kom ótrúlega gíraður inn í tímabilið og svo skíttöpum við. Ég hugsaði bara „hvernig tímabil er þetta að fara að verða?,“ segir Sóli en sumarið 2008 brutu Þróttarar af vananum og héldu sæti sínu í efstu deild:

Það hefur ekki verið okkar leið og þetta er í eina skiptið á minni Þróttaraævi sem við höfum verið í efstu deild tvö ár í röð.

Frá leiknum fræga árið 2007.
Frá leiknum fræga árið 2007. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Kolólöglegt sigurmark...“

Eitt skiptið var vallarþulurinn, ekki Sóli þó, settur í bann eftir ummæli hans í lok leiks. Þróttur tapaði þá 4:3 á móti Fjölni í hörkuleik í baráttunni í næstefstu deild árið 2007 en sigurmark Fjölnis kom í uppbótartíma.

„Þorsteinn Þórsteinsson fór í bann en hann sagði: „Ég veit ekki hver skoraði mark Fjölnis en það var kolólöglegt.

Sólmundur Hólm.
Sólmundur Hólm. mbl.is/Golli

Þróttur leikur heimaleiki sína núna á gervigrasvellinum í Laugardal og Sóli segir að auðvitað séu það ákveðin tímamót þegar stúkan á Valbjarnarvellinum sé rifin. Stemningin á leikjum Þróttar þar var oft á tíðum mjög skemmtilegt en Sóli hefur fulla trú á því að svipað verði upp á teningnum fljótlega á gervigrasinu:

Náum vonandi upp sömu stemningunni

„Það glymur meira í stúkunni þar og eru þar af leiðandi meiri læti. Það er eðlilega ekki kominn sami sjarmi þar en það kemur með tímanum. Það eru til gamlir menn sem vilja að allir leikir séu spilaðir á Melavellinum en Bókhlaðan er þar núna. Maður má ekki vera of fastur í farinu og ég hef trú á því að við náum upp sömu stemningu á gervigrasinu, með minningunum sem við eigum eftir að skapa,“ segir Sóli og bætir við í lokin:

„Vonandi verður árangurinn á vellinum betri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert