Eltir hænurnar sínar um Vesturbæinn

Dögg þarf reglega að elta hænurnar sína um Vesturbæinn.
Dögg þarf reglega að elta hænurnar sína um Vesturbæinn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Íbúar í Vesturbænum, í nágrenni Vesturbæjarskóla, verða öðru hverju varir við forvitnar og jafnvel ráðvilltar hænur á vappi um hverfið og ófár tilkynningar um lausar hænur hafa birst í Facebook-hópnum Vesturbærinn.

„Týnd hæna!“ „Laus hæna á Framnesvegi.“ „Hæna við Bræðraborgarstíg.“ Þetta eru allt nýlegar tilkynningar um hænur á flakki, en þær vekja yfirleitt mikla lukku innan hópsins. Flestir vita orðið hvar hænurnar eiga heima og því auðvelt að koma þeim til skila ef þær villast.

Dögg Hjaltalín er ein þeirra sem heldur fjórar hænur í Vesturbænum og þarf hún reglulega að elta hænurnar sínar um hverfið. Þeir eiga það nefnilega til að sleppa út fyrir girðinguna ef þær verða hvekktar. „Þær fara á flakk þegar þær fælast eitthvað, ef það kemur til dæmis hundur nálægt þeim. Þær geta nefnilega flogið,“ segir Dögg í samtali við mbl.is.

Fór með hænuna yfir götu á grænu ljósi

Fjölskyldan fær yfirleitt tilkynningar frá árvökulum nágrönnum um leið og hænurnar eru komnar út úr garðinum. Fá þá gjarnan sendar myndir af þeim á leið út í óvissuna. „Þær fara stundum á flakki en þær skila sér alltaf aftur,“ segir Dögg og því ljóst að hænurnar rata heim. Oftast að minnsta kosti. „Nema þegar þær fara yfir Hringbrautina eins og gerðist síðasta föstudag,“ segir hún hlæjandi, en þá kom einmitt tilkynning inn í Vesturbæjarhópinn um ráðvillta hænu við Vesturbæjarskóla. Hún var þar að vandræðast í um einn og hálfan klukkutíma áður en Dögg komst í að sækja hana. Það gekk reyndar brösulega í þetta skipti.

„Ég náði henni yfir Hringbrautina á grænu ljósi, en svo hljóp hún aftur til baka. Ég lét hana elta mig með mat, en svo kom rautt ljós og þar sem bílarnir voru orðnir óþreyjufullir þá urðum við að bíða ein rauð ljós á umferðareyju. Svo hljóp hún því miður aftur til baka. Þær verða hræddar ef þær eru búnar að vera lengi í burtu og þá getur verið erfitt að ná þeim,“ útskýrir Dögg. „Sú sem fór síðast er líka sú sem hleypur hraðast,“ bætir hún við.

En hænurnar hafa auðvitað allar sinn karakter og eru jafn ólíkar og þær eru margar. „Þær eru mjög misjafnar. Allar með sitthvorn karakterinn. Það er ein sem er mjög uppreisnargjörn og hún strýkur oftast og svo er önnur sem hleypur hraðast. Ef hún fer í burtu þá er erfiðast að ná henni.“

Minna vesen að vera með hænur en kött

Dögg segir mjög skemmtilegt að halda hænur, enda um stórskemmtileg dýr að ræða. „Þær eru sjúklega fyndnar. Ef maður er úti í garði þá elta þær mann á röndum. Þær eru mjög heimilisvænar. Við erum líka með kött. Það er miklu minna vesen að vera með hænur heldur en kött.“

Hænurnar og kötturinn lifa saman í sátt og samlyndi, en Dögg segir það þó hafa tekið smá tíma fyrir köttinn að aðlagast nýjum fiðruðum fjölskyldumeðlimum. En hann tekur í dag að sér að verja þær fyrir aðsteðjandi hættu. „Svo komu tveir kettlingar í næsta hús og það tók smá tíma fyrir þá að venjast hænunum. Það kom fyrir að það voru brjáluð læti í þeim, en í dag láta þeir þær alveg í friði.“

Dögg heldur fjórar hænur í sátt og samlyndi við önnur …
Dögg heldur fjórar hænur í sátt og samlyndi við önnur dýr og menn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hugmyndin um að halda hænur kviknaði hjá Dögg þegar hún ákvað að reyna að vera meira sjálfbær. Hænurnar borða nefnilega alla matarafgagna. Þá má í raun gefa þeim allt nema avókadó,“ að sögn Daggar.

Hænurnar verpa svo að sjálfsögðu eggjum, nánast allt árið um kring, en varpið dettur þó niður yfir dimmustu vetrarmánuðina. „Þetta eru rosaleg egg sem koma frá þeim. Maður getur næstum því misst þau í gólfið án þess að þau brotni, það er svo hörð skurnin á þeim,“ segir Dögg, en það er merki um að mikil gæði séu í eggjunum.

Allir hressir með hænurnar

Dögg og fjölskylda hennar hafa haldið hænur á Framnesveginum í átta ár og tvær af fjórum hafa verið hjá þeim frá upphafi. Þær eiga í raun að vera löngu hættar að verpa, en eru enn að, sem hlýtur að vera merki um að þeim líði vel.

Hænurnar búa í kofa í garðinum en fá oft að ganga lausar um garðinn. Þær eru búnar að vera úti í allan vetur og Dögg segir þeim ekki vera neitt kalt. Þær hrjúfra sig þétt upp að annarri til að koma í veg fyrir það.

Fjölskyldan fékk að sjálfsögðu leyfi hjá öllum nágrönnunum í kring áður en hænsnahaldið varð að veruleika og dýr og menn hafa lifað í góðri sátt og samlyndi í hverfinu síðustu ár. „Það er reyndar ekki vinsælt þegar þær skíta í garðana hjá nágrönnunum, en annars eru allir hressir með þetta. Það þarf bara að passa að loka þær inni á nóttunni yfir sumartímann því þær vakna svo snemma, þegar sólin kemur upp.“ Aðspurð segir Dögg annars ekkert ónæði vera af hænunum, þær gaggi aðeins af og til, það sé allt og sumt. Hún mælir því með hænsnahaldi fyrir alla þá sem hafa aðstöðu til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert