Freyja „ólýsanlega þakklát“

Freyja Haraldsdóttir á þingi en hún var varaþingmaður Bjartrar framtíðar …
Freyja Haraldsdóttir á þingi en hún var varaþingmaður Bjartrar framtíðar 2013-2016. mbl.is/Ómar Óskarsson

Freyja Haraldsdóttir er afar þakklát fyrir stuðninginn sem hún fékk er aðalmeðferð hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær í máli hennar gegn Barnaverndarstofu.

„Þó dagurinn hafi á köflum reynt verulega á var hann líka kraftmikill og fullur af samstöðu og kærleika. Ég er ólýsanlega þakklát öllu því ómetanlega fólki, ættingjum, vinum, Tabúsystrum, NPA fjölskyldunni, núverandi og fyrrverandi aðstoðarkonum, samstarfsfólki og baráttusystkinum, sem troðfyllti dómssalinn og gott betur en það,“ skrifaði hún á Facebook og þótti leitt að sumir hafi þurft frá að hverfa.

Freyja, sem er hreyfihömluð, telur sig ekki hafa notið sömu málsmeðferðar og ófatlaðir við umsókn sína um að gerast fósturforeldri og var málið höfðað á þeim forsendum.

Freyja hrósar einnig lögmönnum sínum. Þeim Auði Tinnu og Sigrúnu Ingibjörgu, sem hafi stutt hana með ráðum og dáð síðustu fjögur ár.

„Nú tekur við 4-8 vikna bið eftir dómsuppkvaðningu með æðruleysið í fararbroddi og von um að réttlætið sigri. Sama hvernig fer er alla vega ljóst að þessi kvennaþrenna hefur gert sitt allra, allra besta til þess að tryggja að fatlað fólk njóti eðlilegrar málsmeðferðar og að fötlun ein og sér eða þörf fyrir aðstoð geti aldrei útilokað fatlað fólk sjálfkrafa, án rökstuðnings, frá foreldrahlutverkinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert