Stormur suðvestantil og á Norðurlandi

Spáð er allhvössum eða hvössum vindi víða um land í …
Spáð er allhvössum eða hvössum vindi víða um land í dag. mbl.is/RAX

Áfram er spáð allhvössum eða hvössum vindi víða um land í dag. Í athugasemd veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands segir að í fyrstu sé spáð stormi suðvestantil en síðan á Norðurlandi og þar megi búast við mjög snörpum vindhviðum við fjöll.

Lægir mikið í kvöld og nótt.

Appelsínugul viðvörun er á Norðurlandi eystra. Þar er spáð suðvestanstormi, allt að 25 metrum á sekúndu og gætu hviður farið í 45 metra á sekúndu. Mjög byljótt verður við fjöll og talsverð fokhætta í Eyjafirði og austur í Köldukinn.

Gul viðvörun gildir í Faxaflóa, á Ströndum, Norðurlandi vestra og á miðhálendinu.  

Spáð er suðlægri átt á landinu í dag, 13 til 23 metrum á sekúndu, hvassast suðvestantil í fyrstu en síðan á Norðurlandi. Talsvert hægari vindur verður á Breiðafirði og Vestfjörðum.

Rigning og skúrir eða slydduél en skýjað með köflum norðaustan- og austanlands. Í kvöld fer að lægja.

Á morgun verður breytileg átt, 3 til 10 metrar á sekúndu og víða þurrt en hægt vaxandi suðlæg átt annað kvöld og þykknar upp sunnan- og vestantil.

Hiti verður á bilinu 3 til 12 stig, mildast norðaustantil.

Krapi á Holtavörðuheiði

Hálkublettir eru á fjallvegum á Vestfjörðum. Krapi er á Holtavörðuheiði og Nesjavallaleið. þungfært á Bröttubrekku en unnið að mokstri, að því er Vegagerðin greinir frá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert