„Mikið stærra en ég, þessi auma persóna“

Miðað við fyrstu tölur í Vestmannaeyjum næði Elliði Vignisson, núverandi …
Miðað við fyrstu tölur í Vestmannaeyjum næði Elliði Vignisson, núverandi bæjarstjóri, ekki kjöri. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég er bara rosalega þakklát fyrir þessar góðu viðtökur. Þótt þetta séu bara fyrstu tölur þá sjáum það á þessu að það var klárlega meðbyr með því með því að með því að koma með nýtt framboð fram og þessar tölur sýna það,“ sagði Íris Róbertsdóttir, oddviti framboðsins Fyrir Heimey í Vestmannaeyjum, í samtali við RÚV eftir að fyrstu tölur lágu fyrir.

Framboðið, sem er klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum, er með 33,8 prósent atkvæða og fengi tvo bæjarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn er með 45,6 prósent atkvæða og fengi fjóra bæjarfulltrúa, en tapar töluverðu fylgi frá því í síðustu kosningum.

Íris segist telja að málefnin eigi stærstan þátt í að fólk hafi kosið framboðið, frekar en það hvernig framboðið varð til.

Hún er þó ekki farin að sjá fyrir sér hugsanlegt meirihlutasamstarf, enda eigi eftir að telja töluverðan fjölda atkvæða, þar á meðal utankjörfundaratkvæði sem sveifli fylginu oft mikið í Vestmannaeyjum.

Elliði Vignisson, núverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segir spennuna vera mikla og það sé gaman að fylgjast með þessu. Samkvæmt fyrstu tölum næði hann ekki kjöri, en hann er í fimmta sæti lista Sjálfstæðisflokksins.

„Við erum með fjóra menn eins og staðan er núna en það rétt hangir inni. Mér skilst að það muni þremur atkvæðum á fjórða manni Sjálfstæðisflokksins og þriðja manni H-lista (Fyrir Heimaey). Þannig ég er voðalega spenntur fyrir framhaldinu.“

Aðspurður hvort bæjarstjórastóll hans hangi þá ekki á bláþræði segir hann svo vissulega vera. „Hann hangir á þessum sama þræði en þetta er mikið stærra en ég, þessi auma persóna, sem gegnir stórri stöðu.“

Hann bendir á að Fyrir Heimaey og Sjálfstæðisflokkur séu samtals með 79 prósent atkvæða og það sé því ljóst að megnið af fylgi fyrrnefnda framboðsins séu þeir sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í síðustu kosningum ásamt einhverjum kjósendum Eyjalistans. 

Samkvæmt fyrstu tölum missir Eyjalistinn einn mann og Njáll Ragnarsson, oddviti listans, segir það viss vonbrigði. „Við ætluðum að gera betur en það var svosem á brattan að sækja hjá okkur. Við áttuðum okkur á því að þetta nýja framboð myndi taka fylgi frá okkur líka. Við áttuðum okkur á þeirri stöðu og að við þyrftum að berjast fyrir þessu, en þetta eru vonbrigði,֧“ segir Njáll, en bendir á að það sé enn eitthvað eftir. „Við höldum í vonina um að ná inn öðrum manni. Það var okkar takmark.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert