Vigdís sér fyrir sér meirihluta

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík.
Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í Reykjavík. Skjáskot

Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins, segi að Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Flokkur fólksins eigi margt sameiginlegt og að flokkarnir fjórir geti myndað meirihluta í borgarstjórn á málefnalegum grundvelli. 

Þetta sagði Vigdís í Silfrinu sjón­varpsþætt­in­um Silfrið sem er sýnd­ur á RÚV en þar ræddu oddvitar flokkanna sem fengu sæti í borgarstjórn niður­stöðu sveit­ar­stjórna­kosn­ing­anna.

Vigdís sagði að það Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins ætti að leiða viðræður um myndun meirihluta en flokkurinn fékk flesta borgarfulltrúa í kosningunum, alls átta. 

Mér finnst þetta liggja þannig fyrir að Eyþór reyni að mynda meirihluta með þeim flokkum sem eru tilbúnir að fylgja þeirri stefnu sem var kosin í borginni,“ sagði Vigdís. Hún taldi ólíklegt að Viðreisn gæti komið inn í meirihlutasamstarf með Samfylkingunni þar sem Dagur væri ekki tilbúinn að fórna borgarstjórastólnum. 

„Ég tel að Dagur muni ekki fórna borgarstjórastólnum til [Þórdísar Lóu Þórhallsdóttur, oddvita Viðreisnar] miðað við það sem hann hefur sagt og hvernig hann hefur talað.“

Spurð hvaða valkostir kæmu til greina lagði Vigdís það til að Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Flokkur fólksins gangi til viðræðna. 

„Ég er búin að nefna konuna sem situr mér á hægri hönd (Þórdís Lóa) sem er í lykilstöðu eftir þessar kosningar og síðan þessi kona (Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins) sem situr mér á vinstri hönd. Þetta er málefnalegur meirihluti sem á margt sameiginlegt,“ sagði Vigdís. 

„Þórdís Lóa hefur talað fyrir atvinnulífinu, litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Það er stefna Miðflokksins líka og Sjálfstæðisstefnan. Svo gætum við Kolbrún komið inn í þennan meirihluta með velferðaráherslur. Nú er ég búin að leggja þetta upp hér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert