Frá Norway til Íslands

Hópurinn hefur verið við stífar æfingar sl. sex mánuði.
Hópurinn hefur verið við stífar æfingar sl. sex mánuði. Ljósmynd/Jon Mercer, Key & Kitestring

Eitt þeirra 72 liða sem skráð er til leiks í B-flokki WOW Cyclothon kemur frá bænum Norway í Maine í Bandaríkjunum. Hópurinn samanstendur af fimm konum og fimm körlum sem æfa saman í líkamsræktarstöðinni TruStenght Athletics í bænum.

Jesse Wall, eigandi og yfirþjálfari TruStrenght Athletics, segir hópinn hafa ákveðið að taka þátt í hjólreiðakeppninni fyrir hálfu ári síðan, og er þetta í fyrsta skipti sem þau taka þátt í hjólreiðakeppni saman.

Segir hann að þau séu misgóð í hjólreiðum en allt sé þetta mikið íþróttafólk, ýmist með bakgrunn í fjallaklifri, fjallgöngum eða hlaupi. Einstaka liðsmenn hafa keppt í einstaklingshjólreiðum, en á áhugamannastigi.

Spurður hvers vegna þau hafi ákveðið að taka þátt segir Jesse það hafa verið Ísland. Hópinn hafi langað að heimsækja landið og þau hafi fljótlega komist á snoðir um keppnina. Þá hafi þau byrjað að safna fyrir ferðinni og hafið undirbúning.

TruStrenght-hópurinn kemur frá Norway í Maine í Bandaríkjunum.
TruStrenght-hópurinn kemur frá Norway í Maine í Bandaríkjunum. Jon Mercer, Key & Kitestring

Með liðinu kemur framleiðslufyrirtæki sem ætlar að gera heimildarmynd um ferðalagið og keppnina. Hópurinn lendir á Íslandi á sunnudagsmorgun og segir Jesse að dagarnir fram að móti verði nýttir til að sækja hjólin, húsbílinn og fylgdarbílinn og venjast tímamismuninum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert