Skilorðsbundinn dómur vegna tafa

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í skilorðsbundið fangelsi fyrir kannabisræktun í Hafnarfirði. Dómurinn er meðal annars skilorðsbundinn vegna þess hve langan tíma rannsókn málsins tók.

Rannsóknin hófst vorið 2014 og voru tveir grunaðir um aðild að málinu, Jan Andrzej Morsztyn og Kristján Haukur Einarsson. Þeir sögðust báðir hafa staðið einir að ræktuninni og hinn hefði ekki vitað af henni.

Þremur árum síðar, í apríl 2017, mætti Kristján til skýrslutöku hjá lögreglu með nýjan framburð. Sagði hann að tveimur dögum áður en kannabisræktunin var gerð upptæk vorið 2014 hefði Jan sýnt honum ræktunina og beðið hann að taka á sig sök ef lögreglan myndi uppgötva hana. Hefði Jan í staðinn lofað honum greiðslu.

Í nóvember í fyrra var ákæra gefin út á hendur þeim báðum. Við aðalmeðferð játaði Jan að hafa beðið Kristján að taka á sig sök í málinu og ætlað að greiða fyrir það. Kristján hafði verið dæmdur í sextán mánaða fangelsi nokkrum dögum áður en ræktunin var upprætt og fyrir dómi bar Kristján því við að hafa „hvort eð er verið á leið í fangelsi“.

Í dómnum kemur fram að frásagnir Jans og Kristjáns séu taldar ótrúverðugar. Þrátt fyrir það liggi engin sönnunargögn fyrir um aðild Kristjáns að ræktuninni og því verði ekki litið sem svo á að sök hans hafi verið sönnuð.

Kristján var því sýknaður af ákærunni en Jan sakfelldur. 

mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert