Mesta púðrið fer í að leiðbeina fólki

Steypa þarf nýtt brúargólf á Ölfusárbrú.
Steypa þarf nýtt brúargólf á Ölfusárbrú. mbl.is/Eggert

„Þetta hefur gengið vel,“ segir Grétar Óskarsson, flokksstjóri hjá Vegagerðinni á Selfossi, við mbl.is. Ölfusárbrú var lokað klukkan fjögur síðdegis en reiknað er með að hún verði lokuð í viku. Hjáleið er um Þrengsli og Óseyrarbrú.

Nýtt brúargólf verður steypt en á vef Vegagerðarinnar kemur fram að brúin er mjög slitin og þar fer mikill fjöldi bíla yfir daglega. „Klukkan fjögur var brúnni lokað og þriðji steypubíllinn var að koma hingað. Þetta mjakast allt saman,“ segir Grétar.

Hann segir að aðalvinnan hjá starfsfólki Vegagerðarinnar felist í því að leiðbeina fólki til baka þó að lokunin sé auglýst á mörgum stöðum. „Þetta er merkt í Hveragerði, Þrengslunum og Reykjavík. Það eru stórar töflur sem segja til um þetta en svo kemur fólk og er alveg hissa.

Um leið og Grétar sleppir orðinu heyrir blaðamaður hann leiðbeina erlendum ferðamönnum hvernig þeir komist á Selfoss. „It´s closed, go back,“ segir Grétar.

Hann segir fólkinu að fara aftur í Hveragerði, þaðan í áttina að Þorlákshöfn og svo veg 34 yfir Óseyrarbrú. Þá leið verði fólk að fara til að komast á Selfoss.

„Þetta er eins og alltaf, fólk sér ekki skiltin,“ segir Grétar þegar hann hefur lokið útskýringu sinni. Hann bætir því við að hann hafi ekki rekist á neinn sem er reiður vegna lokunarinnar:

„Það eru allir rólegir og fólk tekur þessu vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert