Miðflokkurinn tapaði 16 milljónum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðflokkurinn tapaði tæplega 16 milljónum króna samkvæmt útdrætti úr ársreikningi sem hefur verið skilað inn til Ríkisendurskoðunar og var birtur á vef stofnunarinnar í gær. Rekstur flokksins var 27,5 milljónir en tekjur um 11,8 milljónir. Samkvæmt ársreikningnum skuldaði Miðflokkurinn 17,2 milljónir við síðustu áramót.

Framlög lögaðila til flokksins námu 6,9 milljónum, en átta fyrirtæki styrktu flokkinn um hámarksupphæð, eða 400 þúsund krónur. Framlög frá einstaklingum námu um 1,9 milljónum króna og voru samtals framlög til flokksins því 8,8 milljónir auk 3 milljóna króna framlags frá ríkinu.

Félög tengd sjávarútvegi og útgerð styrktu flokkinn um tæplega helming þess sem lögaðilar styrktu flokkinn um og voru fimm af átta þeirra félaga sem settu hámarksupphæð til flokksins, eða 400 þúsund krónur.

Þau félög sem styrktu Miðflokkinn um hámarksupphæð voru Tandraberg, Óshöfði, Brim, Kvika banki, Síminn, Þorbjörn, Hafblik og HB Grandi.

Önnur félög eru meðal annars Laugar (200 þúsund), Grjótháls ehf. (Eykt) (300 þúsund), Björgun (250 þúsund), Mannvit (200 þúsund) og Góa-Linda sælgætisgerð (200 þúsund).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert