Sækja um að hjóla til Parísar

Hópurinn á hjólunum í Evrópu í síðasta mánuði.
Hópurinn á hjólunum í Evrópu í síðasta mánuði. Ljósmynd/Aðsend

„Það eru þó nokkuð margir búnir að sækja um,“ segir Guðbjörg Þórðardóttir, fjölmiðlafulltrúi Team Rynkeby á Íslandi. Frestur til að sækja um þátttöku í góðgerðarhjólreiðum frá Kaupmannahöfn til Parísar rennur út í dag.

Íslenska Rynkeby-liðið hefur tvívegis tekið þátt en verkefnið er samnorrænt góðgerðarverkefni. Hjólreiðalið hjóla rúmlega 1.300 kílómetra og safna styrkjum fyrir krabbameinssjúk börn.

Guðbjörg og eiginmaður hennar, Viðar Einarsson, hafa veg og vanda af þátt­töku ís­lenska liðsins. Hjónin Lárus Frans Guðmundsson og Ásta Birna Ragnarsdóttir, sem búa í Danmörku, létu Viðar og Guðbjörgu, sem búa á Íslandi, vita af mót­inu fyr­ir fjórum árum. Fóru þau þá að skoða leiðir til að koma að ís­lensku liði og taka þátt.

Guðbjörg segir að góður andi og stemning sé í hópnum.
Guðbjörg segir að góður andi og stemning sé í hópnum. Ljósmynd/Aðsend

Færri komast að en vilja

Guðbjörg segir að það sé erfitt að velja í íslenska liðið en alls verða 40 sem hjóla auk níu aðstoðarmanna sem taka þátt í verkefninu. Í fyrra voru 32 sem hjóluðu og átta aðstoðarmenn en í ár hjóluðu 39 með níu manna aðstoðarteymi. Upphaflega áttu hjólreiðamennirnir að vera 40 en einn heltist úr lestinni vegna meiðsla.

Það er erfitt að velja úr en í fyrra voru um 100 manns sem sóttu um. Fólk sem sækir um þarf að hafa tíma en liðið er sett saman fljótlega í september og þetta er tæpt ár,“ segir Guðbjörg

„Við æfum, hjólum úti meðan veður leyfir og æfum svo inni. Það er þjálfarateymi en fólk verður líka að vera duglegt að æfa sig sjálft.

Mótinu er frekar lýst sem hjólaferðalagi, en ekki er keppt um hver kemur fyrstur í mark. Guðbjörg segir að íslenska hópnum hafi gengið ótrúlega vel í sumar. „Við fengum frábært veður alla leiðina. Það var 30 stiga hiti en við erum ekki vön því,“ segir Guðbjörg og hlær.

Síðasti frestur til að sækja um að vera hluti af …
Síðasti frestur til að sækja um að vera hluti af liðinu er á morgun. Ljósmynd/Aðsend

Hópurinn eins og stór fjölskylda

„Það fóru yfir 100 lítrar af vatni hjá okkur daglega,“ segir Guðbjörg en íslenski hópurinn æfði í leiðindaveðri hér á landi fram að mótinu og því voru viðbrigðin mikil.

„Ég hvet fólk til að sækja um. Þetta er skemmtilegur félagsskapur og við verðum eins og fjölskylda. Við hjálpumst öll að í þessu,“ segir Guðbjörg en áhugasamir geta sótt um hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert